Meirihluti gegn ESB-aðild

Fánar Evrópusambandsins við höfuðstöðvar sambandsins í Brussel.
Fánar Evrópusambandsins við höfuðstöðvar sambandsins í Brussel. Reuters

Meirihluti þeirra, sem tóku þátt í könnun Capacent fyrir Samtök Iðnaðarins, sagðist vera andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Heldur hefur þó dregið úr andstöðu við aðild ef miðað er við samskonar könnun sem gerð var fyrir ári.

Að sögn Reutersfréttastofunnar sögðust 50,5% þátttakenda í könnuninni vera andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu, 31,4% sögðust hlynnt aðild en rúm 18% sögðust ekki hafa skoðun á málinu.

Í könnun, sem gerð var fyrir Samtök iðnaðarins fyrir ári sögðust 60% þátttakenda vera andvíg ESB-aðild en 24,5% sögðust hlynnt aðild. Árið 2009 voru hlutföllin hins vegar mjög svipuð og þau voru nú. 

Könnunin nú var gerð í febrúar. Úrtakið í könnuninni var 3076 manns en endanlegt svarhlutfall var 50,2%.

mbl.is