Fyrrverandi ritstjóri Vikunnar dæmdur fyrir meiðyrði

Hæstiréttur hefur dæmt fyrrverandi ritstjóra Vikunnar til að greiða manni 300 þúsund krónur í miskabætur fyrir meiðandi ummæli, sem birtust um hann í viðtali árið 2009.

Þá voru tiltekin ummæli um manninn í viðtalinu dæmd dauð og ómerk. 

Ritstjórinn, Guðríður Haraldsdóttir, var í Héraðsdómi Vesturlands dæmd til að greiða manninum 900 þúsund krónur í bætur. Þrettán ára dóttir mannsins höfðaði einnig mál vegna sama viðtals og dæmdi héraðsdómur Guðríði til að greiða henni 1,1 milljón króna í bætur fyrir meiðandi ummæli um hana í blaðinu.

Báðum dómunum var áfrýjað til Hæstaréttar, sem lækkaði bæturnar til mannsins og fækkaði þeim ummælum, sem dæmd voru dauð og ómerk. Þá vísaði Hæstiréttur máli stúlkunnar frá og segir, að við útgáfu áfrýjunarstefnu og þingfestingu málsins hafi stúlkan verið ófjárráða og því ekki átt ráðstöfunarrétt yfir sakarefni málsins. Þrátt fyrir það hafi í áfrýjunarstefnu einungis verið getið um stúlkuna en ekki um fyrirsvarsmenn hennar.

Fjallað var um fjölskylduhagi stúlkunnar, skilnað foreldra hennar og samskipti föðurins við móðurfjölskylduna í 30. tölublaði Vikunnar í júlí árið 2009. Einnig var rætt um atlæti stúlkunnar hjá föður sínum, samskipti þeirra feðgina og ættleiðingu núverandi eiginkonu föðurins á stúlkunni.

Lögráðamenn stúlkunnar töldu að vegið hefði verið gróflega að æru stúlkunnar og föður hennar, meðal annars með því að líkja henni og högum hennar á heimili sínu við Öskubusku. Það sama ætti við um fullyrðingar um að stúlkan hefði ítrekað huglett sjálfsvíg, fyrst átta ára að aldri, og með myndum af henni.

Þá taldi faðir stúlkunnar, að gróflega væri vegið að æru hans með ásökunum um ofbeldi í garð fyrri eiginkonu, vörslu barnakláms, líkamlegt og andlegt ofbeldi í garð dóttur hans og misnotkun á börnum. Sagði hann að engin tilraun hefði verið gerð af hálfu blaðsins til að bera efnið undir hann eða dóttur hans þannig að þau gætu komið að athugasemdum eða brugðist við röngum fullyrðingum með einhverju móti.

Fram kom í málinu, að upplýsingarnar í greininni voru fengnar frá móðurömmu stúlkunnar, sem hafði óskað eftir umgengnisrétti við stúlkuna með dómsúrskurði en ekki fengið.   

mbl.is