Fréttaskýring: Hundruð milljóna króna í kostnað

Icesave-samninganefndin kynnir Icesave-samninginn.
Icesave-samninganefndin kynnir Icesave-samninginn. mbl.is/Kristinn

Senn líður að því að Íslendingar gangi öðru sinni til kosninga um afdrif laga um ríkisábyrgð á greiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til Breta og Hollendinga vegna Icesave-innlánsreikninga Landsbankans sáluga.

Málið hefur, sem kunnugt er, reynst ríkisstjórninni óþægur ljár í þúfu og hafa forsætis- og fjármálaráðherra ítrekað lýst yfir vilja sínum til að ljúka málinu. Um það eru flestir væntanlega sammála, þó að ekki deili allir skoðun þeirra á því hvað teljist ásættanlegar málalyktir.

Upplýsingar um kostnað vegna samningaferlisins hefur verið erfitt að fá. Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, beindi á dögunum fyrirspurn til fjármálaráðherra um útlagðan kostnað vegna nýjustu samninganefndarinnar, sem iðulega er kennd við bandaríska lögfræðinginn Lee C. Buchheit. Samkvæmt upplýsingum blaðsins verður þeirri fyrirspurn svarað á þingfundi nú eftir helgi, jafnvel á mánudag.

230 milljónir í fjáraukalögum

Af opinberum gögnum má ráða að kostnaðurinn á síðasta ári nam hundruðum milljóna. Í fjáraukalögum, sem samþykkt voru í desember, er gert ráð fyrir fjárveitingu að upphæð 230 milljónir króna „vegna samningaviðræðna og sérfræðiaðstoðar vegna Icesave-skuldbindinga.“ Sá kostnaður hafi ekki verið fyrirséður við gerð fjárlaga ársins, enda átti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, eftir að synja lögum um þann samning sem þá lá fyrir samþykkis og vísa þannig til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um útlagðan kostnað vegna sérfræðiþjónustu frá ársbyrjun 2009 til októberbyrjunar síðasta árs eru greiðslurnar sundurliðaðar.

Hafa ber í huga að nýjasti samningurinn vegna Icesave var ekki kynntur fyrr en í desember, og ekki ljóst hvort eða hversu mikill kostnaður var lagður út frá og með október. Að sama skapi er hugsanlegt að hluti greiðslna til tiltekinna einstaklinga og fyrirtækja sé til kominn vegna annarra verkefna en Icesave-samninganna, en yfirlitið er ekki sundurgreint eftir verkefnum.

60 milljónir til Buchheit

Lögfræðistofa Lee Buchheit, Cleary, Gottlieb, Steen & Hamilton fékk tæplega 60 milljónir króna greiddar á áðurnefndu tímabili. Samninganefndarmaðurinn Jóhannes Karl Sveinsson starfar hjá lögfræðistofunni Landslögum. Á safnlið fjármálaráðuneytisins eru alls bókfærðar um 15 milljóna króna greiðslur til Landslaga ehf. annars vegar og Landslaga lögfræðiþjónustu ehf. hins vegar. Lárus L. Blöndal, fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni, starfar hjá Juris lögfræðistofu. Greiðslur til Juris voru alls tæpar 44 milljónir, bókfært á safnlið ráðuneytisins. Sú upphæð er ekki sundurliðuð frekar, en afar líklegt verður að telja að hún sé ekki öll til komin vegna Icesave.

Auk samninganefndarmanna var lögfræðistofan Hawkpoint ráðin til ráðgjafar. Bókfærð upphæð greiðslna til Hawkpoint nam 246 milljónum króna. Lögmaður hjá lögfræðistofunni Ashurst var einnig fenginn til ráðgjafar, en þeirri stofu voru greiddar rúmlega 22 milljónir.

Auk ofangreindra var liðsinnis annarra innlendra og erlendra ráðgjafa leitað þegar ráðuneytið mat stöðuna þannig að tiltekin mál væri ekki hægt að leysa með minni tilkostnaði innan ríkiskerfisins.

Kynning á eigin kostnað

Sumir samninganefndarmanna hafa undanfarið orðið við beiðnum hópa um að kynna innihald nýjasta Icesave-samningsins sem kosið verður um í byrjun næsta mánaðar. Þetta hafa þeir gert án aðkomu eða launagreiðslu frá hinu opinbera, að sögn Jóhannesar Karls Sveinssonar, eins nefndarmanna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »