Fimmtán handteknir

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra handtók í dag og færði til frekari yfirheyrslu fimmtán stjórnendur og starfsmenn BYKO og Húsasmiðjunnar, vegna  rannsóknar á meintu ólögmætu samráði fyrirtækjanna. Þá hefur einn starfsmaður verið boðaður til frekari yfirheyrslu.

Fram kemur í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra að aðgerðirnar séu framhald af húsleit í húsnæði Byko hf., Húsasmiðjunnar hf. og Úlfsins, sem fram fóru þann 8. mars sl. og yfirheyrslna í kjölfarið.

„Til rannsóknar eru ætluð brot á banni samkeppnislaga við samráði keppinauta um m.a. verð, gerð tilboða og skiptingu markaða.

Rannsókn efnahagsbrotadeildar beinist að ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna og grundvallast á kæru Samkeppniseftirlitsins, en þau brot sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru stofnunarinnar.

Samhliða rannsókn lögreglu á ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna hefur Samkeppniseftirlitið til rannsóknar hugsanleg brot hlutaðeigandi fyrirtækja á banni við ólögmætu samráði, en slík brot varða fyrirtæki m.a. stjórnvaldssektum.

Aðgerðirnar eru framkvæmdar í samvinnu við Samkeppniseftirlitið,“ segir í tilkynningunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert