Árs fangelsi fyrir að trufla bílstjóra

Reyðarfjörður.
Reyðarfjörður. www.mats.is

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt 43 ára gamlan karlmann í árs fangelsi og 140 þúsund króna sekt fyrir hættubrot, líkamsárásir, ölvunarakstur og brot gegn valdstjórninni.

Maðurinn var m.a. fundinn sekur um hættubrot með því að hafa gripið um innanvert læri ökumanns í bíl, sem hann var farþegi í, og slökkt aðalljós bílsins. Bílstjórinn missti stjórn á bílnum og fór yfir á rangan vegarhelming og stöðvaðist þar. Var talið að maðurinn hefði stofnað lífi og heilsu ökumannsins og þriggja farþega í bílnum í hættu á ófyrirleitinn hátt.

Þá var hann dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa í í kjölfarið lagt með hnífi að andliti eins farþegans. Sá náði að kasta sér aftur og setja höndina fyrir sig þannig að hnífurinn lenti í handarbaki hægri handar. Þá lagði maðurinn með hnífi til tveggja annara manna í bílnum.

Eftir þetta settist maðurinn undir stýri á bílnum og ók honum frá Eskifirði til Reyðarfjarðar þar sem lögregla handtók hann vegna gruns um ölvunarakstur. Reyndist vínandamagn í blóði mannsins vegar 1,39‰.

Loks var maðurinn dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumönnum ofbeldi og líkamsmeiðingum eftir að hann var handtekinn. 

Þetta gerðist í nóvember 2009. Maðurinn sagðist hafa verið sofandi í bílnum en vaknað við að búið var að setja strigapoka yfir höfuð sér. Hann hafi orðið hræddur um líf sitt og því brugðist svona við. 

Dómari hafnaði hins vegar framburði mannsins og dæmdi hann í árs fangelsi. Hann hafði í nóvember 2009 verið dæmdur í 8 mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundna, fyrir fjórar líkamsárásir og rauf því skilorð þess dóms. 

mbl.is

Bloggað um fréttina