Íslenskir bridsspilarar á sigurbraut

Jón Baldursson og Þorlákur Jónsson.
Jón Baldursson og Þorlákur Jónsson. mbl.is/Arnór

Bridssveit, sem Jón Baldursson og Þorlákur Jónsson spila í, er komin í átta liða úrslit í Vandarbilt sveitakeppninni, sem nú fer fram í Kentucky í Bandaríkjunum. Hefur sveitin m.a. unnið pólska landsliðið og sigurvegara síðasta árs. 

Í sveitinni spila auk Jóns og Þorláks þeir Seymon Deutsch,  John Kranyak og
Billy Cohen. Deutsch er þekktur bandarískur kaupsýslumaður og bridsáhugamaður og hefur m.a. unnið ólympíubridsmótið.

Í fyrstu umferð mótsins vann „íslenska sveitin" lið skipað pólskum landsliðsmönnum og í 2. umferð í gær vann sveitin lið Mónakó, sem skipað var Frökkunum Pierre Zimmermann, Franck Multon,  Michel Bessis og Thomas Bessis og Ítölunum Claudio Nunes og Fulvio Fantoni.

Átta liða úrslitin hefjast síðdegis í dag að íslenskum tíma og þá spila þeir Jón og Þorlákur við kínverska sveit. Nú fer fram á netinu kosning um hvaða leik bridsáhugamenn vilja sjá sýndan á vefnum bridgebase.com. Er hægt að greiða atkvæði hér.

mbl.is