Munu hlusta á athugasemdir

Frá fundinum í Hlíðaskóla í dag.
Frá fundinum í Hlíðaskóla í dag. mbl.is/Golli

Fundir ráðamanna Reykjavíkurborgar í Hlíðaskóla með foreldrum í Vesturbæ og Hlíðum um breytingar í skólamálum er lokið. Segir Óttar Proppé borgarfulltrúi að fundirnir sem hafa verið haldnir til að kynna tillögurnar hafi verið nauðsynlegir og tekið verði tillit til ýmissa athugasemda. Enn sé fjallað um tillögur sem eigi eftir að fara betur yfir.

Óttar sat þrjá fundanna. Hann var spurður um þá gagnrýni að heppilegra hefði verið að halda sérstakan fund með Vesturbæingum og annan með íbúum í Hlíðahverfi, of margt sé ólíkt með þessum svæðum. Margir fulltrúar foreldrafélaga í Vesturbænum mættu ekki á fundinn í Hlíðaskóla í dag, sumir í mótmælaskyni.

,,Ég vil ekki meina að svo sé og mér fannst fundurinn mjög góður," svarar Óttar.  ,,Það var mikið af almennum spurningum sem áttu við hvort hverfið sem var. Það má líka spyrja sig  hvort það hefði líka átt að vera einn fundur fyrir allan Vesturbæinn eða fundur bara fyrir hluta hans. Þetta er alltaf spurning hvar mörkin eru."

 Aðrir hefðu líka sagt að skipta hefði mátt fundunum upp millli annars vegar grunnskóla og hins vegar leikskóla. En þá mætti benda á að margir foreldrar ættu börn á báðum skólastigum. Auk þess yrði að hafa í huga að því fleiri sem fundirnir yrðu þeim mun lengri tíma liði þar til hægt væri að taka ákvarðanir og óvissan langvarandi. En hvað segir hann um ásakanir um skort á samráði, fum og fát, lélegan undirbúning að breytingunum?

,,Mér finnst að það hafi verið unnin hér góð vinna og reynt að hafa samráð við eins marga og hægt er að ætlast til. Það er mín upplifun."

  Hjálmar Sveinsson varaborgarfulltrúi varð að sæta því að foreldrar neituðu að samþykkja hann sem fundarstjóra, vildu einhvern úr eigin röðum. Hann segist ekki hafa tekið það nærri sér, ljóst hafi verið að margir þyrftu að fá útrás fyrir reiði. En skólamál væru eðlilega mikið tilfinningamál og ekkert við því að segja.

  ,,Það kom fram hörð gagnrýni sem er mjög skiljanlegt, þetta eru erfið mál. Þetta hefur tekið mjög á. En auðvitað er hlustað á þessa gagnrýni enda þótt svo geti farið að taka verði ákvarðanir sem sumum muni líka afar illa,"sagði Hjálmar.

 Hann sagði ljóst að hægt væri að ná fram verulegum sparnaði með sameiningu og fækkun yfirmannastarfa. Mikill fjöldi leikskóla væri í borginni og benti hann á sem dæmi um slæma nýtingu á starfskröftum að hver þeirra þyrfti að gera eigin fjárhagsaáætlun.      

Nemendur í Melaskóla. Hart er nú deilt um skólamálin í ...
Nemendur í Melaskóla. Hart er nú deilt um skólamálin í Reykjavík. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is