Tillaga um stjórnlagaráð samþykkt

Gert er ráð fyrir því að leitað verði til þeirra …
Gert er ráð fyrir því að leitað verði til þeirra 25 fulltrúa sem kosnir voru á stjórnlagaþing, við setu í stjórnlagaráði. mbl.is/Eggert

Alþingi samþykkti í dag, með 30 atkvæði gegn 21, tillögu um að skipa 25 manna stjórnlagaráð til að fjalla um breytingar á stjórnarskránni.  Sjö sátu hjá í atkvæðagreiðslunni, þar á meðal tveir ráðherrar, Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson.

Atkvæðagreiðslan var löng og margir þingmenn tjáðu sig um hana og voru skoðanir afar skiptar. Stuðningsmenn tillögunnar sögðu, að með henni væri hvorki verið að sniðganga lög, ákvörðun Hæstaréttar um að ógilda stjórnlagaþingskosninguna né brjóta gegn stjórnarskrá.

Þeir sem greiddu atkvæði gegn tillögunni sögðu hins vegar að verið væri að ganga á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfsstæðisflokksins, lagði jafnframt áherslu á, að flokkurinn hefði fullan vilja til að vinna að breytingum á stjórnarskránni.

En Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki endurskoða stjórnarskrána nema hann fengi að sjá algerlega um þá endurskoðun sjálfur.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins  greiddu allir atkvæði gegn  þingsályktunartillögunni og þingmenn Hreyfingarinnar greiddu allir atkvæði með henni. Aðrir flokkar klofnuðu. Fjórir þingmenn Samfylkingarinnar, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar, Skúli Helgason og Kristján L. Möller sátu hjá en Kristján sagðist ekki geta sætt sig við að aðeins tveir fulltrúar af landsbyggðinni sitji í stjórnlagaráði.

Þrír þingmenn Framsóknarflokksins, Guðmundur Steingrímsson Höskuldur Þórhallsson og Siv Friðleifsdóttir, studdu tillöguna og einn, Eygló Harðardóttir, sat hjá en aðrir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni. Sagði Siv að Alþingi hefði fulla heimild til að skipa stjórnlagaráð og það væri fráleit túlkun að verið sé að brjóta stjórnarskrána.

Þá sáti Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hjá í atkvæðagreiðslunni. Lilja Mósesdóttir, sem sagði sig úr þingflokki VG á mánudag, greiddi atkvæði gegn henni.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert