Of langt gengið í hækkunum

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði segja að meirihlutinn gangi of langt í gjaldskrárhækkunum Orkuveitunnar. Miðað við upplýsingar sem liggi fyrir muni þær auka kostnað meðalfjölskyldu í borginni um 18-30.000 á ári. Óvíst sé um áhrif á fyrirtæki.

Sjálfstæðismenn telja að farsælla hefði verið að fara hægar í slíkar hækkanir eða hraða öðrum aðhaldsaðgerðum fyrirtækisins. Fram kom í dag að gert er ráð fyrir að á sex ára tímabili skili 45% hækkun fráveitugjalds um  6,1 milljarði króna og 8% hækkun gjaldskrár fyrir heitt vatn skili 1,9 milljarði króna.  Í tilkynningu frá meirihlutanum kom fram að hækkunin feli í sér að útgjöld fjölskyldu í íbúð af algengri stærð aukast um tæplega 1.500 kr. á mánuði. 

Í bókun Sjálfstæðismanna segir að ástæða þess að ekki tókst að tryggja OR endurfjármögnun hafi ekki verið að fullu skýrð. Í samantekt forstjóra OR komi fram að þau vilyrði sem fyrirtækið hafði fyrri hluta árs 2010 um fyrirgreiðslu lánastofnana hafa ,,gjörbreyst til hins verra” síðari hluta sama árs svo vitnað sé beint til orða forstjórans.

„Þessi staða er því miður hvorki í samræmi fyrri væntingar né áform núverandi stjórnar sem hefur nú í tæpt ár farið með verkefnið og m.a. gripið til harkalegra aðgerða gagnvart borgarbúum með þeim rökum að það myndi tryggja endurfjármögnun. Þær yfirlýsingar hafa ekki gengið eftir og því verða eigendur nú að finna aðrar leiðir en lántökur til að fjármagna fyrirtækið næstu árin.
Þær aðgerðir sem meirihlutinn hefur nú kynnt gera ráð fyrir það geti gengið eftir, sem segir talsvert um styrk fyrirtækisins, sem forsvarsmenn sama meirihluta hafa kosið að tala um með óábyrgum og óvönduðum hætti allt frá því þeim var falið að leiða það stóra verkefni,“ segir í bókuninni. 

Sjálfstæðismenn vekja einnig athygli á því að borgarsjóður sé sterkur bakhjarl en það ráðist einkum af því að strax eftir efnahagshrun hafi Reykjavíkurborg byrjað að byggja upp sérstakan sjóð sem hefði yfir að ráða 10-12 milljörðum til að verja fyrirtækið. „Sú fyrirhyggja sem borgarstjórn sýndi með þeirri aðgerð nýtist nú og mun miðað við útreikninga fjármálastjóra ekki ógna lausafjárstöðu borgarinnar né þeirri ávöxtun sem borgin á að njóta af slíkri fjárhagsstöðu,“ segir í bókun sjálfstæðismanna.


Hægt er að lesa bókunina í heild og fleiri skjöl um OR hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert