Alþingi leiðrétti sanngirnisbætur

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að sanngirnisbæturnar sem hafa verið greiddar út vegna dvalar á vistheimilinu í Breiðavík séu smánarlegar og ósanngjarnar. Þór hyggst leita eftir því að málið verði skoðað aftur á vettvangi þingsins og að það verði leiðrétt með einhverjum hætti.

„Það er að mínu mati Alþingi til vansa ef það lætur þetta mál fá svo skammarlegan endi. Ég mun því leita eftir því við formann allsherjarnefndar, allsherjarnefnd og alla formenn þingflokka um að málið verði skoðað aftur á vettvangi þingsins með það fyrir augum að niðurstaða sýslumanns og framganga framkvæmdavaldsins verði með einhverjum hætti leiðrétt,“ sagði Þór á Alþingi í dag.

Alþingi samþykkti lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum þann 28. maí í fyrra. Sýslumaðurinn á Siglufirði hafði umsjón með fyrstu afgreiðslu bótanna fyrr í þessum mánuði.

„Afgreiðslan var í engu samræmi við þær væntingar sem lagt var upp með, hvorki af hálfu Breiðavíkurdrengja, forsætisráðherra, allsherjarnefndar eða Alþingis sjálfs, sé tekið mið af umræðunni sem var í þinginu og nefndinni um málið,“ sagði Þór.

„Sýslumaðurinn á Siglufirði virðist hafa farið út fyrir hlutverk sitt og sett upp einhverskona reikniverk byggt á stigum og hvers aðferðafræði er mjög óljós. En þess má geta að nefnd undir stjórn Viðars Más Matthíassonar lagaprófessors hafði einmitt lagt til slíkt reikniverk á sínum tíma, en það var slegið út af borðinu sem óframkvæmanlegu. Ekki er heldur kveðið á um slíkt reikniverk í lögunum,“ sagði Þór.

Hann segir að reikniverk sýslumannsins á Siglufirði hafi gert það að verkum að „sanngirnisbætur til Breiðavíkurdrengja eru smánarlegar og ekki að neinu marki sanngjarnar, og enginn þeirra er sáttur við þær.“

Margir hverjir hafi þó samþykkt bæturnar. „Bæði vegna lítt dulbúins hótunartóns í bréfi sýslumanns en ekki síður vegna þess að þeir hafa persónulega fengið nóg af málinu og því sem þeir kalla endalausa fyrirlitningu stjórnvalda í sinn garð,“ sagði Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert