Treysti NATO ekki fyrir horn

Líbísk stúlka við bráðabirgðaskýli í bænum Mizdah suður af Tripoli.
Líbísk stúlka við bráðabirgðaskýli í bænum Mizdah suður af Tripoli. Reuters

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag að hún treysti hernaðarbandalaginu NATO ekki fyrir horn. 

Hvers vegna ýtti vinstri græni fulltrúinn þá ekki á nei-takkann og bannaði NATO að taka við stjórn aðgerða í Líbíu, spurði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Þessi orðaskipti urðu í umræðu um störf þingsins eftir að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Álfheiði hver væri munurinn á að styðja stríð í Líbíu undir beinni stjórn Sameinuðu þjóðanna eða NATO.

Álfheiður sagði, að Vinstri græn hefðu stutt ákvörðun öryggisráðs SÞ um flugbann yfir Líbíu og teldu að SÞ væri réttur vettvangur  til að meta stöðuna þar sem átök geisuðu. „Við treystum þeim og þeirra leiðsögn. Við treystum hins vegar ekki hernaðarbandalaginu NATO til að framfylgja samþykktum Sameinuðu þjóðanna og hvers vegna ættum við að gera það? Við erum flokkurinn sem erum á móti aðild Íslands að hernaðarbandalaginu NATO. Við erum flokkurinn, sem erum á móti hernaðarbandalögum yfirleitt," sagði Álfheiður.

Ragnheiður Elín  sagði, að ótrúlegt væri að fylgjast með málflutningi Vinstri grænna í Líbíumálinu. Þegar ákvörðun um hvort NATO eigi að taka yfir stjórn hernaðaraðgerðanna var tekin hefði Ísland haft tök og tækifæri til að stöðva þá ákvörðun með því að ýta á nei-takkann.

„Ríkisstjórn Íslands með Vinstri-græna  innanborðs ákvað að styðja þá ákvörðun og kemur  nú, annaðhvort uppfull af yfirgripsmiklu þekkingarleysi á þessum tveimur stofnunum og hvernig ákvarðanir eru teknar þar, eða að þetta er heimóttarleg eftiráskýring, notuð til að tala inn í einhvern róttækan hóp sem mun ekki sætta sig við neitt á þessu sviði, eftirá, þegar allar ákvarðanir hafa verið teknar," sagði Ragnheiður Elín.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að samþykkt öryggisráðs SÞ kvæði á um flugbann, og ekki væri hægt að framfylgja flugbanni nema gerðar séu loftárásir á herþotur, flugvelli og önnur hernaðarmannvirki og koma þannig í veg fyrir að herflugvélar líbískra stjórnvalda geti tekið á loft og gert þannig árásir á eigin þegna.

„Það er ekki fallegt, það er ekki friðsamlegt en það var samþykkt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna," sagði Þórunn. Sagði hún að í sínum huga væri það ekki aðalatriðið hvaða ríki eða ríkjabandalag framfylgdi ákvörðun öryggisráðsins, svo framarlega sem það væri gert.  

mbl.is

Bloggað um fréttina