Ólga á vinnumarkaði verði gerðir eins árs samningar

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ).
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ). mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við teljum að það eigi að hafa samráð við hagsmunaaðila í þessum efnum, bæði okkur, sjómenn og landverkafólk, og að sjálfsögðu útgerðarmenn. Ef ríkisstjórnin vill fá sátt í sjávarútvegsmálum þá verður hún ekki til án þátttöku þeirra sem starfa í greininni. Það er einfaldlega okkar afstaða,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um áherslu Samtaka atvinnulífsins (SA) á að fyrir liggi í hvaða umhverfi íslenskur sjávarútvegur eigi að starfa til framtíðar áður en gengið verði frá kjarasamningi.

„Við höfum líka sagt við atvinnurekendur að við teljum alveg ótækt að setja allan vinnumarkaðinn í uppnám út af þessu. En það er hins vegar alveg klárt að ef aðstæður í sjávarútvegi eru með þeim hætti að atvinnurekendur treysti sér ekki til þess að fara í þriggja ára samning þá er það auðvitað bara niðurstaðan,“ segir Gylfi. Það muni þó ekki koma atvinnurekendum undan því að gera kjarasamning um launahækkanir á þessu ári. Skylda samningsaðila sé að gera kjarasamninga.

„Það að gera skuldbindandi kjarasamning til þriggja ára verður aðeins gert í trausti og tiltrú á að það sé til góðs. Og ef ríkisstjórnin hagar málum með þeim hætti að það traust sé ekki til staðar þá verður bara annars konar kjarasamningur gerður. Hann verður þá gerður til árs,“ segir Gylfi. Hann segir að ASÍ hafi allt aðrar kröfur í huga ef niðurstaðan verði eins árs samningur í stað þriggja ára. Sú niðurstaða kunni að leiða til þess að mjög mikil ólga skapist á vinnumarkaði.

Gylfi sagðist bjartsýnni á kjaraviðræðurnar í dag en hann var í gær. Frekari fundarhöld hefðu ekki verið ákveðin en að halda yrði áfram að ræða málin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert