Bretar og Hollendingar sagðir óttast dómstólaleiðina

Morgunblaðið/Ómar

Breska dagblaðið Guardian fjallaði í gær um þjóðaratkvæðið um Icesave-samningana sem fram fer hér á landi nk. laugardag. Farið er ítarlega yfir aðdraganda málsins og niðurstöður síðustu skoðanakönnunar hér á landi. Þjóðin sé klofin í tvennt í afstöðu sinni til þess hvort samþykkja eigi samningana eða hafna þeim sem þýddi væntanlega að málið færi fyrir dómstóla.

Fram kemur að bresk og hollensk stjórnvöld séu talin óttast mjög að niðurstaða þjóðaratkvæðisins verði sú að Icesave-samningunum verði hafnað þar sem það gæti leitt til þess að tekist yrði á um málið fyrir dómstól Fríverslunarbandalags Evrópu (EFTA).

Þá segir í frétt Guardian, sem skrifuð er af blaðamanninum Simon Bowers, að margir Íslendingar telji að niðurstaða dómstóla myndi sýna fram á að sú skoðun sé ekki á rökum reist að ríki verði samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins að hlaupa undir bagga ef innistæðutryggingasjóðir geti ekki bætt innistæður.

„Afgerandi lagalegri niðurstöðu í þá veru yrði ekki fagnað á alþjóðavettvangi þar sem að hún myndi varpa ljósi á það hversu gríðarlega illa fjármagnaðir innistæðutryggingasjóðir í Bretlandi, Hollandi og í raun í öllum heiminum eru,“ segir í fréttinni.

Talsverðar umræður hafa skapast í athugasemdum við frétt Guardian og eru skiptar skoðanir um málið. Flestir virðist þó á þeirri skoðun að Íslendingum beri ekki að greiða fyrir Icesave en mikið af umræðunum snúast um gagnrýni á stjórnvöld í Bretlandi vegna þess hvernig þau hafi tekið á breskum efnahagsmálum.

Frétt Guardian

mbl.is