Baldur í 2 ára fangelsi

Baldur Guðlaugsson ásamt lögmönnum sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Baldur Guðlaugsson ásamt lögmönnum sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/GSH

Baldur Guðlaugsson var dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Þá var söluandvirði hlutabréfa í Landsbankanum, sem Baldur seldi, gert upptækt en um var að ræða 192 milljónir króna.

Baldur var ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. september 2008.  Baldur var þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir, að Baldur hafi búið yfir innherjaupplýsingum eins og lýst sé í ákæru þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbanka Íslands. Hann hafi því verið innherji í skilningi laga um verðbréfaviðskipti og brotið gegn þeim lögum. 

Þá telur dómurinn að Baldur hafi framið brot sín í opinberu starfi sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins. 

Baldur bar að margt hefði orðið þess valdandi að hann seldi hlutabréfin í Landsbankanum 17. og 18. september 2008. Eitt af því hafi verið að hann hafi talið að Landsbankinn og breska fjármálaeftirlitið væru að ná samkomulagi varðandi yfirfærsluna.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir, að ekkert hafi komið fram um þetta á fundi samráðshópsins 16. september 2008, daginn fyrir sölu hlutabréfanna. Enginn vitnisburður styðji mat Baldurs um þetta. Samkvæmt þessu hafi ekkert komið fram á fundi samráðshópsins 16. september 2008 sem gaf Baldri ástæðu til að draga þá ályktun að lausn væri fyrirsjáanleg í máli Landsbankans og breskra stjórnvalda og að Baldur gæti þess vegna selt hlutabréf sín í bankanum.

Þvert á móti hafi komið fram á fundinum ákvarðanir ráðherra um að ekki stæði til að bjarga hluthöfum banka kæmi til fjármálaáfalls. Það sé mat dómsins að ekkert hafi komið fram á ofangreindum fundi né hafi verið nokkuð fyrir hendi annað sem gaf til kynna að erfiðleikar Landsbankans varðandi yfirfærsluna væru að breytast í átt til lausnar.

Baldur var einnig dæmdur til að greiða málskostnað, þar með taldar rúmar 4,5 milljónir króna málsvarnarlaun til Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns. Björn Þorvaldsson, saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið en Guðjón St. Marteinsson, héraðsdómari, dæmdi í málinu.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert