Bankar styrkja Áfram

Aðstandendur Advice-hópsins, sem talar gegn því að Icesave-lögin verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn, segja enga ákvörðun hafa verið tekna um það hvort nöfn styrktaraðila verði gefin upp.

Frosti Sigurjónsson, einn meðlima hópsins, segir það standa til að ræða þau sjónarmið sem við eigi, meðal annars um rétt styrktaraðila til nafnleyndar og rétt kjósenda til þess að vita hverjir fjárhagslegir bakhjarlar séu. Aðspurður segir Frosti heildarfjárhæðina sem varið hafi verið í auglýsingar undanfarið ekki liggja fyrir. Hann segir þó að framlög hafi aukist til muna eftir að „hákarls-auglýsingin“ umtalaða birtist í dagblöðum fyrir helgi.

Öruggar heimildir Morgunblaðsins herma að meðal styrktaraðila Áfram-hópsins, sem hefur þá opinberu afstöðu að farsælast sé að samþykkja Icesave-lögin, séu Samtök fjármálafyrirtækja (SFF). Stjórn SFF samþykkti í síðustu viku að styrkja Áfram-hópinn um eina milljón króna, eftir að beiðni þar að lútandi barst frá Áfram-hópnum.

Stóru bankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki halda utan um meirihluta atkvæða í stjórn SFF. Eftir því sem næst verður komist hafa forsvarsmenn Advice ekki óskað eftir styrk frá SFF. Heimildir Morgunblaðsins herma jafnframt að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafi styrkt Áfram um sömu upphæð og SFF.

Margrét Kristmannsdóttir, einn forsvarsmanna Áfram-hópsins, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær ekki vilja tjá sig um styrki frá einstökum lögaðilum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert