Undirskriftir gegn stjórninni?

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson Ragnar Axelsson

„Það er kannski nauðsynlegt að efna til víðtækustu undirskriftarsöfnunar, sem nokkru sinni hefur verið efnt til á Íslandi til þess að knýja þessa ríkisstjórn frá,“ spyr Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í leiðara á síðu Evrópuvaktarinnar í dag. 

Styrmir segir að með þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær hafi Ísland „tekið forystu meðal þjóða heims í baráttu fólks gegn alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sem hafa leitazt við að láta skattgreiðendur borga fyrir mistök fjármálamannanna sjálfra og notið til þess stuðnings pólitískra forystumanna og annarra ráðandi afla í hverju landinu á fætur öðru.“

Hann segir að nú verði „horft til Íslands sem fyrirmyndar um það með hvaða hætti almenningur getur hrakið á brott þá, sem með ósvífnum hætti hafa reynt að þvinga alþýðu manna til þess að borga skuldir, sem þeim eru óviðkomandi.

Það er ástæða til að óska íslenzku þjóðinni til hamingju með þessa niðurstöðu. Afkomendur þeirra, sem fyrir ellefu hundruð árum vildu ekki láta kúga sig í Noregi hafa sýnt hverrar gerðar þeir eru.“

Styrmir segir að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna geti ekki setið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það megi þó ráða af fyrstu viðbrögðum oddvita stjórnarinnar að það hyggist þeir gera.  Hann segir að hafi oddvitar stjórnarinnar ekki frumkvæði að því að segja af sér verði þjóðin að reiða sig á að þingmenn í stjórnarflokkunum knýi fram afsögn og kosningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert