Ömurleg frammistaða Moody's

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi á Bessastöðum í ...
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi á Bessastöðum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði við sjónvarp Bloomberg fréttastofunnar, að hann hefði ekki sérlegar áhyggjur af yfirlýsingum matsfyrirtækisins Moody's um að lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins kunni að lækka niður í ruslflokk ef Íslendingar höfnuðu Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Frammistaða Moody's  við að meta lánshæfi Íslands er ömurleg því þegar íslensku bankarnir áttu í erfiðleikum gaf Moody's þeim AAA einkunn," sagði Ólafur Ragnar. „Ég held að Moody's ætti frekar að taka tillit til þess, að erlend stórfyrirtæki á borð við Rio Tinto og Alcoa vilji fjárfesta á Íslandi. Raunar hefur Rio Tinto nýlega tilkynnt, að fyrirtækið ætli að fjárfesta 5 milljarða dala í endurnýjun á álveri á Íslandi og fjárfestar frá Evrópu og Bandaríkjunum urðu í síðustu viku stórir hluthafar í stærsta skipafélaginu á Íslandi og íslenskum banka. Alþjóðlegir fjárfestar og fyrirtæki eru því að fjárfesta á Íslandi og Moody's ætti að taka tillit til þess," sagði Ólafur Ragnar. 

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði við fréttamenn við Stjórnarráðið í dag, að unnið sé að því innan Seðlabankans að erlend matsfyrirtæki lækki ekki lánshæfiseinkunn Íslands í kjölfar niðurstöðu Icesave-kosninganna.

Sagði Már í fréttum Bylgjunnar að bankinn væri í stöðugu sambandið við matsfyrirtækin, þó ekki hafi verið um að ræða formlega fundi. Vænta mætti frekari frétta af viðbrögðum matsfyrirtækja síðar í dag eða á morgun.

mbl.is