Neitar ummælum um forsetann

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi á Bessastöðum á …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi á Bessastöðum á sunnudag. mbl.is/Árni Sæberg

Sylvester Eijffinger, prófessor við Tilburg-háskóla, hefur farið þess á leit að ummæli sem höfð eru eftir honum á vef EU Observer verði leiðrétt en þau byggja á umfjöllun Morgunblaðsins. Vísar prófessorinn því á bug að hafa sagt að Ísland ætti að skipta um forseta. Til er upptaka af samtalinu sem sýnir hið gagnstæða.

Blaðamaður hefur nokkrum sinnum rætt við prófessorinn og í kjölfarið sent honum pdf-útgáfu af síðum þar sem viðkomandi grein hefur birst í Morgunblaðinu. Hefur þar komið fram að hann hafi veitt Jan Peter Balkenende, fv. forsætisráðherra Hollands, ráðgjöf í Icesave-deilunni.

Hefur prófessor Eijffinger aldrei gert athugasemdir við þá framsetningu. Þá er til staðfesting hans á viðtali við hann á ensku frá því í mars í fyrra sem fylgir hér með sem pdf-skjal en þar kom fram að hann hefði veitt Balkenende ráðgjöf í deilunni.

Nú fullyrðir hann hins vegar í samtali við EU Observer að hann hafi ekki veitt Mark Rutte, núverandi forsætisráðherra Hollands, eða forvera hans ráðgjöf í deilunni.

Sé það rétt að hann hafi aldrei veitt Rutte ráðgjöf skal það leiðrétt hér með. Hitt er ítrekað að tekinn hafa verið viðtöl við prófessorinn sem ráðgjafa hollenskra stjórnvalda í Icesave-deilunni og hefur hann sem fyrr segir ekki gert ahugasemdir við það. Fóru viðtölin fram á þeirri forsendu.

Grein EU Observer má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina