Ný leið mörkuð

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi að afdráttarlaus niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave þýddi, að meirihluti þjóðarinnar hefði ákveðið að snúa frá markaðri stefnu í Icesave-deilunni og markað nýja leið.

Jóhanna sagði, að eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hefðu ráðherrar og embættismenn rætt við nágrannaríkin og matsfyrirtæki. Þetta hefði  skilað sér í að viðbrögð þessara aðila hafi verið yfirveguð og nokkuð jákvæð sem betur fer. 

„Icesave-deilan mun leysast á endanum, hvort sem það verður eftir eitt, tvö eða þrjú ár," sagði Jóhanna. 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að vel hefði tekist að rækta samskiptin við erlend stjórnvöld, matsfyrirtækin og aðra aðila. Steingrímur sagðist í gær hafa átt góð samtöl í gær við fjármálaráðherra Svíþjóðar og Noregs og góðar vonir stæðu til að niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni hefði ekki áhrif á samskipti Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fjármögnunina frá honum.

Steingrímur sagði einnig, að Lars Christiansen hjá Den Danske Bank, sem spáð hefði hvað gleggst  fyrir um ófarir Íslands árið 2006, teldi nú að Ísland væri komið út úr hinu versta, hér væri hafinn hagvöxtur og horfurnar ágætar.

Sagðis Steingrímur sammála þessu þótt hann væri ekki  sammála spám Christiansens um mikla styrkingu krónunnar og mikið atvinnuleysi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert