Hlöllabátar í 25 ár

Hjónin Hlöðver og Kolfinna halda nú áfram rekstri Hlöllabáta við …
Hjónin Hlöðver og Kolfinna halda nú áfram rekstri Hlöllabáta við Bíldshöfða þar sem þau standa nú vaktina ásamt dætrum sínum þremur.

Hlöllabátar fagna 25 ára afmæli á morgun, en fyrsti staðurinn opnaði þann 14. apríl árið 1986. Þá opnuðu hjónin Hlöðver Sigurðsson og Kolfinna Guðmundsdóttir skyndibitastaðinn á Steindórsplaninu við hlið leigubílastöðvar Steindórs, þar sem nú er Ingólfstorg.

Fram kemur í tilkynningu að fleiri milljónir báta hafi verið seldir í gegnum tíðina og hafi New York báturinn verið einn sá vinsælasti frá upphafi, en sá bátur hafi kveikt hugmyndina að ævintýrinu.

Á morgun verður haldið upp á afmælið með því að bjóða alla báta á 500 kr. Frítt gos, prins polo og popp fylgir með allan daginn á Bíldshöfðanum.

Í tilkynningu segir að árið 1986 hafi skyndibitastaðurinn verið mikil nýjung og í fyrsta skipti sem boðið hafi verið upp á heitan skyndibita í löngu brauði sem hafi hlotið nafnið bátar, en það hafði ekki þekkst áður á Íslandi.

„Hlöðver fékk þessa hugmynd á ferð sinni til New York skömmu áður.  Hlöllabátar  byrjuðu  feril sinn í vagni sem þau hjónin létu smíða og stækkaði reksturinn með hverju árinu sem leið og er í dag einn af þekktustu íslensku skyndibitastöðum landsins.

Eftir  mikla  uppbyggingu  ásamt því að hafa opnað á fleiri stöðum í gegnum tíðina  ákváðu  hjónin  árið  1998  að  minnka  við  sig  og  selja frá sér Hlöllabáta  við  Ingólfstorg. Sjálf héldu þau áfram rekstri Hlöllabáta við Bíldshöfða þar sem þau standa nú vaktina ásamt dætrum sínum þremur. Einnig keyrir Hlölli Hlöllavagninn niður í bæ um hverja helgi,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert