Frjálslyndur hópur finnur sig ekki í flokknum

Siv Friðeifsdóttir.
Siv Friðeifsdóttir.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir í viðtali við blaðið Reykjavík um helgina, að frjálslyndur hópur í flokknum finni sig þar ekki alveg í augnablikinu. 

Í viðtalinu segir Siv að hún telji mjög ólíklegt að hún eigi eftir að segja skilið við Framsóknarflokkinn.

„Mér finnst það mjög, mjög ólíklegt. En það skal viðurkennt að það er frjálslyndur hópur í flokknum, sem finnur sig ekki alveg í flokknum í augnablikinu. Í þeim hópi eru til dæmis miklir stuðningsmenn mínir," segir Siv.

Hún segir að þetta sé jafnvel fólk, sem sé frekar andsnúið Evrópusambandinu en vilji sjá hvernig aðildarviðræðunum vindi fram og gera það þá upp við sig. „Þetta er fólk sem vill taka upplýsa ákvörðun þegar það er tímabært með staðreyndirnar fyrir framan sig. Þessi viðhorf fara saman við mínar skoðanir," segir Siv og segir einnig að hópur innan flokksins hafi tekið niðurstöðuna á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins nærri sér. Þar var samþykkt í ályktun um utanríkismál að Framsóknarflokkurinn telji hag Íslands best borgið utan Evrópusambandsins.

Siv hefur talað fyrir því, að reynt verði að mynda nýja ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka og Framsóknarflokksins. Hún segir í viðtalinu, að  það kæmi henni á óvart ef formenn flokkanna færu ekki að setjast niður á næstu dögum og vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert