„Þjóðin gleypir ekki við svona skrípaleik“

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Bragi —r J—sefsson

„Eins og við sögðum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna þá voru einfaldlega engar efnislegar ástæður til þess að lækka lánshæfismat Íslands. Það var ljótt að horfa upp á það hvernig Moody's kom fram í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar þar sem þeir hótuðu að lækka matið. En svo virðist sem þeir séu búnir að ná sönsum í þeim efnum núna og því ákveðið að lækka það ekki eins og við bjuggumst við,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Hann segir það furðulega framkomu hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar að segja að afloknu þjóðaratkvæðinu að engar efnahagslegar forsendur væru fyrir því að lækka lánshæfismatið eftir að hafa notað hótanir Moody's í aðdraganda hennar sem rök fyrir því að samþykkja ætti Icesave-samningana. 

„Þetta er auðvitað afskaplega holur málflutningur. Svo þykjast þeir núna hafa bjargað þessu öllu sjálfir. Allir sem fylgdust með umræðunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna vita hvað þeir sögðu þá. Þjóðin gleypir ekki við svona skrípaleik,“ segir Höskuldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina