Undirbúa verkfallsaðgerðir

Ríkissáttasemjari
Ríkissáttasemjari mbl.is/Golli

„Þetta var árangurslaust þannig að við erum búin að kalla saman aðgerðahópinn innan sambandsins til fundar á morgun,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins. Hann segir „vandræðaganginn“ hjá Samtökum atvinnulífsins vegna fiskveiðistjórnunarmála óþolandi.

Fulltrúar SGS og SA funduðu fyrr í kvöld en sá fundur skilaði engu. Björn segir aðgerðahóp SGS ætlað að kalla til fulltrúa frá aðildarfélögum og leggja línurnar fyrir framhaldið. „Við ætlum að reyna að finna einhvern takt á morgun og munum þá bara halda því áfram að undirbúa aðgerðir.“

Spurður að því hvort hann eigi við að boðað verði til verkfalls játar hann því. „Já, það er auðvitað það sem við erum að undirbúa. Þetta er nefnilega ekki hægt, að láta draga sig endalaust á asnaeyrunum.“

Hann segir SA hafa hafnað samningstilboði SGS frá því í byrjun síðustu viku. „Þeir höfnuðu því og voru í raun ekki tilbúnir í neitt. Töluðu um einhvern þriggja ára samning sem þeir höfnuðu sjálfir fyrir hálfum mánuði síðan.“

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að samtökin gæfu engan afslátt af kröfum sínum er snerta fiskveiðistjórnunarkerfið. Mikilvægt sé að ríkisstjórnin höggvi á þann hnút sem kjaradeilurnar séu nú komnar í.

„Vandamálið er það að þessi deila ríkisstjórnarinnar og LÍÚ er algjörlega óþolandi fyrir launþega,“ segir Björn.

„Það að ekki sé hægt að gera kjarasamninga í landinu nema LÍÚ fái að ákveða hvernig fiskveiðistjórnunin er. Við tökum ekki þátt í þessu, það er ósköp einfalt. Það verður ekki vandamálið að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall. Það þarf að mótmæla svona yfirgangi eins og LÍÚ og SA eru að sýna.“

Björn segir menn reyna að stilla saman strengi sína í hverjum þeim aðgerðum sem gripið verður til. „Það verður að vera eitthvað sem menn eru samtaka í.“

Leggi aðgerðahópur Starfsgreinasambandsins það til að grípa eigi til verkfallsaðgerða tæki sá undirbúningur nokkurn tíma. „Það þarf náttúrulega að greiða atkvæði og til þess þarf að boða með viku fyrirvara, þannig að þetta tekur allt sinn tíma,“ segir Björn. Félagssvæði Starfsgreinasambandsins sé að auki stórt.

Ekki hefur verið boðað til fundar hjá ríkissáttasemjara vegna deilu SA og SGS. Björn segir stöðuna ekki þannig að hann sjái fyrir sér að fundað verði á morgun. Menn muni taka sér tíma til þess að meta stöðuna sem upp sé komin. „Sjálfsagt verður lítið um fundi næstu daga.“

mbl.is