Ekki hægt að hafa þetta eins og jójó

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn

„Það er ekki hægt að hafa þetta eins og eitthvert jójó,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um þá afstöðu SA að vilja ljúka gerð þriggja ára samnings. Aðildarfélög ASÍ séu nú í viðræðunum og vilji semja til eins árs. Það efni sem var upp á borðinu í kjaraviðræðum fyrir páska sé það ekki lengur.

„Þetta var sú leið sem menn vildu fara fyrir páska og þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar í gær eru bara staðfesting á því sem við fengum að heyra á þeim tíma af hálfu ríkisstjórnarinnar, að hún vildi koma til móts við þær kröfur sem við höfðum lagt fram. Það voru einhverjir hnökrar varðandi framkvæmdamálin, sem við töldum þá að væri fullvíst að yrði lagfært. Engu að síður vildu Samtök atvinnulífsins ekki fara þessa leið og höfnuðu því að taka samkomulagi um einhverja skemmri skírn í málinu,“ segir Gylfi. 

„Það er alveg ljóst að Samtök atvinnulífsins hafa hagað sér með þeim hætti að það er enginn trúverðugleiki yfir þessu lengur. Þeir hafa sjálfir staðið að samningi síðan sem felur í sér verulega hærri og meiri hækkanir, þannig að það er ljóst að það efni sem var hér á borðinu fyrir páska er það ekki lengur,“ segir hann.

„Þetta gengur ekki þannig að Samtök atvinnulífsins geti valsað hér um með sína hagsmuni og komið svo til baka og sagt að nú viljum við að 15. apríl renni upp aftur. Okkar félög eru í dag í viðræðum um að fá kjarasamning á þessu ári og hafa lagt fram kröfur um að samið verði til eins árs.“

Samninganefnd ASÍ búin að skila af sér

Spurður hvort ASÍ sé þá ekki til viðræðu um að taka aftur upp viðræður um samning til þriggja ára segir Gylfi: „Þeir hafa þegar eyðilagt það. Það verður þá að vera alveg sýnilegt að samtökin vilji setja það efni í þetta sem þeir hafa sjálfir gefið forsendur fyrir síðan.“

Gylfi segir að samninganefnd ASÍ sé búin að skila sínu verkefni. Aðildarfélög ASÍ hafi í upphafi viljað skammtímasamning og á endanum hafi samtök atvinnurekenda verið sammála því en hafi nú aftur skipt um skoðun. „Það er ekki hægt að hafa þetta eins og eitthvert jó jó,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert