Rekstrarskilyrðin verði tryggð

„Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er það loforð uppi að sjávarútveginum verði tryggð góð rekstrarskilyrði til framtíðar. við treystum því að sjávarútvegurinn komi vel út úr þeim skipulagsbreytingum sem stöðugt er talað um,“ sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, á fréttamannafundi í morgun.

Fulltrúar í framkvæmdastjórn SA kynntu á fundinum ákvörðun samtakanna um að látið verði reyna á vilja ASÍ og landssambanda þess að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, var á sama tíma á sáttafundum með Flóafélögunum og samtökum verslunarmanna í húsnæði Ríkissáttasemjara.

Fram kom á fréttamannafundinum að framkvæmdastjórn SA hafi fyrst og síðast horft á umgjörð sjávarútvegsins en óþolandi óvissa hafi verið um starfsemi þessa grundvallaratvinnugreinar.

 „Eins og fram hefur komið þá hafa menn ekki verið að tala fyrir óbreyttu kvótakerfi, heldur fyrir því að þessari óvissu yrðu eytt með viðunandi hætti fyrir greinina. Þetta er hluti af heildarmyndinni. Við búum í einu hagkerfi og að tala eins og sjávarútvegurinn sé eitthvert einangrað fyrirbæri í atvinnulífinu er út í hött,“ sagði Grímur Sæmundsen, varaformaður SA.

Forystumenn SA sögðu að þrátt fyrir að lokatilboð ríkisstjórnarinnar sé langt í frá að vera nægjanlegt og slæma reynslu af loforðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við stöðugleikasáttmálann, þá hafi SA ákveðið með tilliti til mikilvægis stöðugleika í framtíðinni og að þjóðin komist upp úr kreppunni, að freista þess að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings með aðfararsamningi til 15. júní.

Treysta því að fyrirheitin verði efnd

Ef samkomulag næst með aðfararsamningi verður tíminn til 15. júní notaður til að reyna að komast til botns í málum sem ennþá standa útaf eins og t.d. varðandi framkvæmdir við samgöngumannvirki, að sögn Vilmundar.

„Þar munum við freista þess að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir 15. júní,“ sagði hann. SA treysti því að þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gefur í yfirlýsingu sinni um framgang mála á Alþingi verði efnd.

Fram kom að öll áhersla sé lögð á að ná upp hagvexti sem gæti orðið 5% á næstu árum. Nú muni reyna á hvort ríkisstjórnin og þingið geri þær ráðstafanir sem þarf svo viðunandi árangur náist.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert