Segir málið á forræði þingsins

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Friðrik Tryggvason

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á heimasíðu sinni í dag margt orka tvímælis í athugun sem innanríkisráðuneytið lét framkvæma á hagkvæmni þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands til Suðurnesja. Hann vill að Alþingi láti gera óháð mat á málinu án aðkomu ráðuneytisins. Björgvin ásamt öðrum þingmönnum Suðurkjördæmis lögðu nýverið fram þingsályktunartillögu um að flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Málið sé því á forræði Alþingis en ekki innanríkisráðuneytisins:

„Nú er það á forræði þings og þingnefndar. Leiði önnur og ítarlegri athugun í ljós að flutningur Gæslunnar sé bæði hagkvæmur og skynsamlegur út frá faglegum forsendum jafnt og efnahagslegum er því ekkert til fyrirstöðu að Alþingi ákveði að stofnunin skuli flutt á Reykjanesið.

Við munum því ekki láta útspil innanríkisráðuneytisins stöðva málið. Sérstaklega þar sem svo heppilega háttar að það er komið til þingsins í formi ályktunar okkar þingmannanna tíu. Nú hefst sá þáttur málsins og við skulum spyrja að leikslokum. Alþingi hefur síðasta orðið. Ekki ráðherra. Því er brýnt að hraða vinnu nefndar og þings og leiða málið til lykta á málefnalegum forsendum,“ segir Björgvin.

Heimasíða Björgvins G. Sigurðssonar

mbl.is