Forseti Slóveníu heimsækir Ísland

Danilo Türk, forseti Slóveníu.
Danilo Türk, forseti Slóveníu. Reuters

Forseti Slóveníu, dr. Danilo Türk, og eiginkona hans, frú Barbara Miklič Türk, koma í opinbera heimsókn til Íslands á morgun. Þau munu dvelja hér í tvo daga.

Fram kemur í tilkynningu að með forsetanum komi þrír ráðherrar í ríkisstjórn Slóveníu, frú Darja Radić efnahagsráðherra, frú Irma Pavlinič Krebs, ráðherra opinberrar stjórnsýslu, og Roko Žarnić umhverfis- og skipulagsmálaráðherra auk embættismanna.

Þá fylgja forseta Slóveníu viðskiptasendinefnd, með fulltrúum ríflega 20 slóvenskra fyrirtækja, og blaðamenn.

Heimsóknin hefst á morgun með hátíðlegri athöfn á Bessastöðum kl. 14:30. Þar munu íslensku forsetahjónin ásamt ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og embættismönnum taka á móti hinum erlendu gestum. Í kjölfarið fylgir viðræðufundur forseta landanna. Þeir munu síðan ræða við blaðamenn kl. 15:35.

Frá Bessastöðum heldur forseti Slóveníu í heimsókn til Alþingis. Þar verður hann ávarpaður úr forsetastóli en síðan munu forsetinn og ráðherrar eiga fund með fulltrúum stjórnmálaflokka á Alþingi og forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Hinir slóvensku ráðherrar munu jafnframt eiga sérstaka fundi með íslenskum starfsbræðrum sínum síðdegis á morgun.

Að kvöldi fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar bjóða forseti Íslands og forsetafrú til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Slóveníu og forsetafrú.

mbl.is

Bloggað um fréttina