Útvarpsstjóri svaraði bloggara

Eiður Guðnason, bloggari og fyrrum ráðherra, birti í dag bréf sem Páll Magnússon, útvarpsstjóri sendi honum vegna athugasemda sem hann lét falla á vef sínum, Eidur.is. Eiður gagnrýndi RÚV fyrir að sýna ekki frá fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu í bloggfærslu sem birtist á miðvikudagskvöld. Páll segir að Eiður ætti að temja sér yfirvegaðri vinnubrögð.

Eiður hefur reglulega gagnrýnt Ríkisútvarpið á vef sínum, en bloggfærslan á miðvikudag hófst á eftirfarandi orðum:
„Aldrei, aldrei, hefur menningarleg lágkúra Ríkissjónvarpsins í Efstaleiti verið eins augljós og í kvöld (04.05.2011) þegar fyrstu langþráðu tónleikarnir fara fram í Hörpu. Sjónvarpið lét nánast sem Harpan væri ekki til.“

Í bréfinu útskýrir Páll hvers vegna ekki var sýnt frá tónleikunum. Það hafi einfaldlega verið vegna þess að forráðamenn Hörpunnar bönnuðu það. Páll segir að hins vegar hafi tónleikarnir í gær verið teknir upp fyrir sjónvarp og að þeir verði sýndir á Hvítasunnudag. Að auki verði formleg opnunarhátíð Hörpunnar í næstu viku send út beint bæði í sjónvarpi og útvarpi.

Í bréfi útvarpsstjóra stendur einnig:
„Þetta hefðirðu getað kynnt þér með t.d. einu símtali og forðast þannig að gera sjálfan þig að hálfgerðu viðundri einn ganginn enn þegar þú fjallar um RÚV. Þú ættir kannski að temja þér að telja upp að tíu áður en þú rýkur froðufellandi af formælingum og bræði og bloggar um hluti sem þú veist nákvæmlega ekkert um – og nennir ekki að kynna þér.

Stöðug og stjórnlaus heift þín í garð Ríkisútvarpsins og starfsmanna þess er fólki hér innandyra raunar mikið undrunarefni. Sjálfum finnst mér þetta jafnvel jaðra við að vera rannsóknarefni – a.m.k. fyrir sjálfan þig.“ Páll endar bréfið þannig: „Með vinsemd en þverrandi virðingu,  Páll Magnússon“

Eiður segir það sérstaka ánægju að birta athugasemd Páls. „Þjóðin átti heimtingu á að fá að sjá og heyra þessa fyrstu tónleika. Það eru engin tæknileg rök  gegn því að þetta hafi ekki verið hægt. Stjórnendur Hörpu áttu að gera ráð fyrir þessu frá upphafi. Ganga út frá þessu.  Allur tæknibúnaðurinn er til. Harpa er þjóðareign. Þjóðin átti að fá að sjá og heyra. Ekki bara nokkrir útvaldir. Þetta voru alvarleg mistök. Það átti að gera ráð fyrir þessu frá upphafi,“ skrifar Eiður.

Færsla Eiðs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert