Óviðunandi ástand við íþróttavelli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir, að ástandið við íþróttavelli borgarinnar sé oft óviðunandi vegna þess að ökumenn leggi bílum sínum uppi á graseyjum, gangstéttum og göngustígum. Þá sé í stöku tilvikum einnig lagt á og við gangbrautir.

Lögreglan segir, að brot sem þessi bjóði heim hættu fyrir gangandi vegfarendur, skapi vandræði fyrir almenningssamgöngur og valdi skemmdum hjá sveitarfélögum. Jafnframt geti svona stöðubrot gert mjög erfitt fyrir þegar um neyðarakstur lögreglu, slökkviliðs og sjúkraliðs er að ræða.

Lögreglan biður ökumenn, sem sækja íþróttakappleiki, að sýna gott fordæmi og leggja ökutækjum sínum löglega. Brotlegir muni þurfa að greiða stöðubrotsgjald.

Lögreglan hefur einnig birt myndir, sem sýna ástandið við nokkra íþróttavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert