Fóru ofan í gíginn

Vísindamennirnir við mælingar við Eyjafjallajökul.
Vísindamennirnir við mælingar við Eyjafjallajökul. mbl.is/Björn Oddsson

Fjórir vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands kynntu sér aðstæður í og við Eyjafjallajökul í gær. Þeir fóru meðal annars ofan í sjálfan gíginn þar sem þeir gerðu mælingar.

„Aðaltilgangur ferðarinnar var að kanna aðstæður vegna fyrirhugaðra mælinga í sumar,“ segir Björn Oddsson, jarðfræðingur hjá Jarðvísindastofnun HÍ, í samtali við mbl.is. 

Stefnt sé að því að gera jarðeðlisfræðilegar mælingar í sumar, m.a. með þyngdarmæli og íssjá.

„Þyngdarmælirinn segir þér hvað er undir jörðu, en mismundandi tegundir af bergi toga mismunandi fast. Þá er hægt að gera sér einhverjar hugmyndir um gosrás eða annað slíkt. Hvort það sé móberg undir, berg eða gjóska,“ segir Björn.

Hann segir að íssjármælingarnar séu gerðar til að meta þykkt íssins og sjá hversu mikill ís hafi bráðnað. Einnig til að meta hættuna á jökulhlaupum í gosi.

Svo verða gerðar frekari mælingar á gjóskunni og gjóskudreifingu.

Menn verði hins vegar að bíða fram á sumar eða næsta haust til að komast niður að gjóskunni sem liggi undir snjó.

Vísindamennirnir óku um Innri-Skolt þaðan sem þeir horfðu yfir hraunið. Síðan var ekið að gígbarminum sjálfum, þ.e. að gjallgígnum sem hlóðst upp í gosinu í fyrra. Þaðan var gengið niður á gígbotninn.

„Þar myndi ég halda að væri um fjögurra til tíu metra þykkt snjólag á botninum. Það er ekki þetta stöðuvatn sem sást seinasta vor, en það gæti hins vegar eitthvað vatn legið undir,“ segir Björn.

Koltvísýringur við hættumörk

Hitinn var mældur rétt undir gjóskunni sjálfri og segir Björn að hitastigið hafi verið á bilinu 70-95 gráður. Hann segir að gígurinn sé kaldur í miðjunni en jarðhitinn sé bundinn við gígrimana. Þar sé mikil uppgufun og sjást því gígveggirnir vel nema að sunnanverðu, en þar er snjór.

Björn segir að koltvísýringur hafi mælst á gígbotninum og hann sé við hættumörk. Er fólki ráðlagt frá því að fara þangað niður.

mbl.is/Björn Oddsson
mbl.is/Björn Oddsson
Vísindamennirnir við mælingar við Eyjafjallajökul.
Vísindamennirnir við mælingar við Eyjafjallajökul. mbl.is/Björn Oddsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka