Harpa tekin formlega í notkun

Frá opnunartónleikum í Hörpu í kvöld.
Frá opnunartónleikum í Hörpu í kvöld. mbl.is/Eggert

Formleg opnunarhátíð tónlistarhússins Hörpu er í kvöld og standa nú yfir tónleikar í aðalsalnum, Eldborgu.

Um helgina verður opið hús í Hörpu og ókeypis á alla viðburði á laugardag. Þann dag er húsið opnað kl. 11:00 og verður fjölbreytt dagskrá í tveimur minni tónleikasölum Hörpu: Norðurljósum og Kaldalóni. Meðal þeirra sem koma fram eru Karlakórinn Fóstbræður, Gissur Páll Gissurarson, Kammersveit Reykjavíkur, Ólafur Arnalds, Caput-hópurinn, kór Íslensku óperunnar, Kristinn H. Árnason, Björn Thoroddsen og Kazumi Watanabe og tríó Tómasar R. Einarssonar sem leikur í anddyrinu.

Klukkan 20:00 á laugardagskvöldið stígur svo hljómsveitin Apparat Organ Quartet á svið í næststærsta salnum, Silfurbergi. Við tekur röð af popp- og rokksveitum, s.s. Mammút, Agent Fresco, Valdimar, Hjaltalín, Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar, Lights on the Highway og dagskráin endar svo á HAM. Tónleikunum lýkur á miðnætti. Í tilefni af opnun Hörpu verður ókeypis inn á alla þessa viðburði.

Á sunnudag verður húsið einnig opnað kl. 11:00 og verður fjölbreytt barnadagskrá allan daginn. Í Eldborg verða tvennir barnatónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Maxímús Músíkús. Á þá tónleika er uppselt en á aðra viðburði kostar ekkert. Í Kaldalóni verður leikritið um herra Pott og ungfrú Lok sýnt kl. 17:00 og 17:45. Frá kl. 13:00 verður sérstök tónlistarhátíð barna og unglinga í Silfurbergi.

Áhorfendur fylltu Eldborgu í kvöld.
Áhorfendur fylltu Eldborgu í kvöld. mbl.is/Eggert
Gestir í Hörpu í kvöld.
Gestir í Hörpu í kvöld. mbl.is/Eggert
Ólafur Elíasson, listamaður, sem hannaði glerhjúpinn á Hörpu, kemur til …
Ólafur Elíasson, listamaður, sem hannaði glerhjúpinn á Hörpu, kemur til opnunarhátíðarinnar. mbl.is/Eggert
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, í fylgd …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, í fylgd Þórunnar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Hörpu. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina