60 kíló af fíkniefnum

Khat.
Khat.

Fjórir erlendir karlmenn  hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 31. maí að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þeir voru handteknir á gistiheimili í Reykjavík í fyrradag, grunaðir um aðild að innflutningi á tæplega 60 kg af fíkniefninu khat, sem lögreglan hefur lagt hald á.

Tveir mannanna eru um fertugt, einn um fimmtugt og sá fjórði er hálfsextugur. Fíkniefnin fundust við tollskoðun þegar senda átti þau úr landi til Kanada og Bandaríkjanna.

Lögreglan segir, að talið sé að efnunum hafi verið pakkað inn hér en ekki hafi verið ætlunin að koma þeim á markað á Íslandi, sem þó virðist hafa verið einhverskonar viðkomustaður á leið með fíkniefnin frá Evrópu og vestur um haf.

Eftir  tollskoðunina hófst frekari eftirgrennslan sem leiddi til þess að íslensk tollyfirvöld sendu beiðni til Frakklands og óskuðu eftir því að ákveðin sending frá Íslandi yrði kyrrsett þar ytra. Við því var orðið en sendingin innihélt sama efni og var  um ámóta magn að ræða og hér var lagt hald á. Talið er að málin tengist.

Þetta er í annað sinn sem lögreglan hér á landi leggur hald khat en  sumar fundust nokkrir tugir kílóa af efninu í öðru lögregluumdæmi.

mbl.is

Bloggað um fréttina