Innbrot í dagvistun fatlaðra

Reykjanesbær.
Reykjanesbær. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Brotist var inn í Ragnarssel, dagvistun fyrir fötluð börn í Reykjanesbæ, á aðfaranótt fimmtudags. Á meðal þess sem var stolið voru tölvuturnar, flakkari og myndbandstökuvél. Þá höfðu þjófarnir á brott með sér gardínu sem krakkarnir höfðu málað utan um þýfið.

Fóru þjófarnir inn á skrifstofu Hedu Marenar Sigurpálsdóttur, forstöðuþroskaþjálfara, og tóku tvo tölvuturna af gerðinni HP Compaq og tölvuskjá af gerðinni Dell. Þá tóku þeir Canon-myndbandsupptökuvél  og sjónvarpsflakkara með mikið af ljósmyndum.

Auk þess höfðu þeir með sér eitthvað af peningum í eigu foreldrafélags dagvistunarinnar og lyf, þar á meðal rítalín.

„Öll þau gögn sem ég er búin að safna síðustu fimmtán til tuttugu árin eru á tölvunum þannig að ég er svona vængbrotin. Svo eru allar myndir í tölvunni há mér og á flakkaranum svo þær eru farnar,“ segir Heda Maren.

Hefur starfsfólk gripið til Netsins til þess að auglýsa eftir hlutunum og sjá hvort að þjófarnir hafi samvisku í að skila þeim aftur. Ef einhver hefur upplýsingar um þá er hægt að hafa samband við lögregluna í Reykjanesbæ eða við Ragnarssel.

mbl.is