Fuglar farnir af hreiðrunum

Bændur reyna að hafa geldfé úti til þess að rýmka …
Bændur reyna að hafa geldfé úti til þess að rýmka í fjárhúsunum. Þeim er gefið úti í krapinu, en vistin er blaut og kuldaleg. mbl.is/Atli Vigfússon

Atli Vigfússon, bóndi á Laxamýri í Þingeyjarsýslu, óttast að varp fugla hafi misfarist í hretinu sem gengur yfir landið. Hann segir greinilegt að mikið af fugli sé farinn af hreiðrunum.

Atli sagði að bændur væru með allt lambfé á húsi. Sumir hefðu verið búnir að setja lömb út en hefðu tekið þau inn aftur fyrir helgi þegar spáð var frosti og snjókomu. Atli sagði sauðburði ekki lokið og menn hefðu eitthvert pláss til að hýsa féð og flestir ættu nóg hey. Geldfé væri hins vegar gefið úti.

Atli sagði slæmt ef ekki hlýnaði fljótlega því erfiðar yrði að eiga við sauðburðinn ef ekki væri hægt að setja ær sem eru bornar út á tún. Veðurstofan spáir kulda og snjókomu á Norður- og Austurlandi næstu daga.

„Ég óttast hins vegar að fuglalífið fari illa,“ sagði Atli. Hann sagði greinilegt að vaðfuglar og minni fuglar væru farnir af eggjunum. Hann taldi einnig líklegt að æðarvarp við Skjálfanda hefði farið illa. Æðarkollur sætu lengi á eggjunum þó að snjóaði, en þegar hausinn væri að fara á kaf gæfust þær upp og yfirgæfu hreiðrin.

Atli tók fram að menn væru ekki búnir að skoða afleiðingar hretsins. „En ég sá það þegar ég fór út í morgun að það er fullt af fugli við húsið, t.d. hrossagaukar og jaðrakan og það er greinilegt að það eru fuglar sem hafa yfirgefið hreiðrin.“

Atli sagði að ef varpið væri komið skammt á veg væri fuglinn líklegur til að verpa aftur, en síður ef ungar væru komnir úr eggjum.

Atli sagði í morgun að það væri enn snjókoma í Þingeyjarsýslu og ekki líklegt að það létti til í dag.

mbl.is