Talsvert mikið öskufall hefur verið á Kirkjubæjarklaustri í kvöld. Hjörleifur Sveinbjörnsson, jarðfræðingur á Veðurstofu, segir að búast megi við öskufalli áfram í nótt. Hann segir að askan sé mun grófari en askan sem féll í gosinu í Eyjafjallajökli.
Hjörleifur sagði að ekki hefðu orðið miklar breytingar á gosinu frá því það hófst að öðru leyti en því að aska væri farin að falla í byggð. Hann sagðist hafa heyrt frá íbúa á Klaustri sem leist ekki á það sem væri að gerast. Mikið öskufall er líka í Suðursveit.
Hjörleifur sagði að gosið væri basaltgos. Það væri jákvætt því askan væri ekki eins fín og í gosinu í Eyjafjallajökli. Hann sagðist ekki hafa trú á að askan ætti eftir að dreifast eins víða og askan frá Eyjafjallajökli sem var einstaklega fín og barst hratt upp í háloftin. Hjörleifur efaðist um að þessi aska ætti eftir að hafa áhrif á flugumferð.
Hjörleifur sagði að flest benti til að gosið væri á mjög svipuðum stað og eldgosið í Grímsvötnum árið 2004. Hann sagði að aðdragandi gossins væri stuttur. Engin merki um gos hefðu sést á mælum kl. 17 þegar Hjörleifur ætlaði að fara að undirbúa sig til að fara heim af vaktinni. Kl. 17:30 sáust merki um gos og kl. 18 voru jarðvísindamenn nokkuð vissir um að gos væri hafið. Um kl. 19 sást gosmökkurinn úr byggð.
Hjörleifur sagði að eldstöðin hefði greinilega ekki þurft að bræða af sér mikinn ís því að mökkurinn hefði mjög fljótlega komast uppí háloftin.
Eldgosið sást víða um land í kvöld og m.a. sást mökkurinn úr Reykjavík.