Mjög öflug gosstöð

Mökkurinn sést víða af Suðuarlandi.
Mökkurinn sést víða af Suðuarlandi. mynd/Halldóra K. Unnarsdóttir

„Það er alltaf full ástæða til að athuga alla möguleika þegar Grímsvötn gjósa, því þau eru mjög öflug eldstöð þó síðustu gos hafi verið mjög meinlaus,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Að sögn Páls hefur gosið verið lengi í pípunum. „Það hefur verið jafn og þéttur undirbúningur frá síðasta gosi árið 2004, því eftir að því lauk fóru Grímsvötnin strax að búa sig undir næsta gos.“  Þrýstingurinn í eldstöðinni hafi farið fram úr því sem hann var við gosið 2004 strax síðasta haust og kom þá hlaup úr vötnunum. Hófust þá vangaveltur um að gos myndi hefjast hvað úr hverju.

Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins en Páll segir enn of snemmt að draga ályktanir um eðli þessa goss út frá líkindum við fyrri gos. „Það er ekki ennþá orðið alveg ljóst hvers konar gos þetta er enda er enginn búinn að sjá það nema úr fjarlægð og þá er erfitt að segja hvernig þetta kemur til með að líta út, en þrjú síðustu gos hafa verið mjög svipuð. Þau voru lítil og áttu upptök undir suðurbrún öskjunnar,  þannig að menn eiga svo sem ekki von á neinu stórgosi núna.“

Hann segir upptök gossins skipta miklu máli, en enn er ekki fyllilega ljóst hvar þau liggja í gosstöðvunum.  „Það getur skipt miklu máli um hvernig þessu vindur fram. Það bráðnar náttúrulega ís og verður til vatn og það fer eftir þykkt jökulsins hversu mikð,ef þetta er undir þunnum jökli þá bráðnar lítið en ef gosið er utan við aðallægðina verður ísinn þykkari. Þá bætist vatn í Grímsvatnalægðina og þá getur komið hlaup þannig að það ræðst mjög verulega af því hvar það kemur upp.“

Páll bendir á að Lakagígagosið hafi komið úr Grímsvatnaeldstöðvakerfinu svo ljóst sé að það kerfi geti vissulega gert mjög alvarlega hluti og því sé alltaf mikilvægt að vera á tánum þegar gos hefjist. „Ég held að ef við eigum að lifa með þessum eldstöðvum okkar þá verðum við að vera það, án þess þó að missa okkur í hvert skipti.“

Gosið virðist vera kröftugt.
Gosið virðist vera kröftugt.
Páll Einarsson skoðar skjálftamæla í náttúrufræðahúsinu Öskju ásamt Freysteini Sigmundssyni. …
Páll Einarsson skoðar skjálftamæla í náttúrufræðahúsinu Öskju ásamt Freysteini Sigmundssyni. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina