Bjarni tæki við af Birni

Björn Bjarnason, Bjarni Benediktsson og Kjartan Gunnarsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Björn Bjarnason, Bjarni Benediktsson og Kjartan Gunnarsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Bjarnason, fv. dómsmálaráðherra, segir í nýrri bók sinni, Rosabaugur yfir Íslandi, að þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð vorið 2007 hafi hann ætlað að sitja sem dómsmálaráðherra til áramóta 2008/2009 „enda tæki Bjarni Benediktsson við sæti mínu."

Í bókinni segir Björn frá umræðum í tengslum við ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde í maí 2007, eftir að tekist hafði að mynda nýja stjórn með Samfylkingunni. Varð Björn þá áfram dóms- og kirkjumálaráðherra en fyrir þingkosningarnar birti Jóhannes Jónsson í Bónus heilsíðuauglýsingar í blöðum með hvatningu til sjálfstæðismanna um að strika nafn Björns út í kosningunum.

Í bók sinni segir Björn orðrétt: „Ég lagði áherslu á við Geir á fundi okkar í ráðherrabústaðnum 22. maí 2007 að ég sæti áfram sem dómsmálaráðherra. Annað veikti stöðu Sjálfstæðisflokksins á þeirri stundu. Baugsmenn vildu greinilega hlutast til um innri málefni flokksins. Viki ég, yrði það túlkað þeim í hag. Ég sagðist hins vegar vilja víkja úr ríkisstjórninni á kjörtímabilinu og voru áramótin 2008/09 nefnd, enda tæki Bjarni Benediktsson við sæti mínu."

Á sínum tíma var uppi orðrómur um að Bjarni Benediktsson, alþingismaður og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ætti að taka við af Birni í ríkisstjórn en það fékkst aldrei staðfest opinberlega.

Björn segir að þegar dró að áramótunum 2008 og 2009 hafi allt verið orðið gjörbreytt vegna bankahrunsins. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi þá verið boðaður undir lok janúar 2009.

„Mæltist ég til að ég sæti sem ráðherra fram að þeim fundi. Áður en til hans kom, sleit Samfylkingin stjórnarsamstarfinu með kröfu um að Geir viki úr stóli forsætisráðherra. Geir hafði þá tilkynnt að hann mundi hverfa af stjórnmálavettvangi vegna alvarlegra veikinda," segir Björn ennfremur í bók sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert