Ofurlaunaliðið fær ekki að soga til sín hagvöxtinn

Jóhanna Sigurðardóttir á fundinum í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að ofurlaunaliðið, fjárglæframennirnir og stóreignaelítan fái ekki að soga til sín hagvöxtinn sem framundan sé á meðan Samfylkingin fái að ráða.

Hún segir nóg að þjóðin hafi þurft að greiða fyrir síðasta gleðskap þessa fólks.

„Sú svallveisla var haldin undir lúðrablæstri frjálshyggjutrúboðs Sjálfstæðisflokksins. Lífskjarasóknin er framundan er verður hins vegar á forsendum jafnaðarstefnunnar.“ 

Þetta sagði hún í ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fram fer í Garðabæ.

Var Jóhönnu klappað lof í lófa eftir að hún lét ummælin falla.

Hún sagði ennfremur að kaflaskil hefðu nú orðið í endurreisnarstarfinu.

„Björgunarstarfinu er að mestu farsællega lokið og forsendur hafa verið lagðar fyrir raunverulegri lífskjarasókn,“ sagði Jóhanna.

Þó enn sé víða við erfiðleika að glíma og enn sé óvissa varðandi ýmis mál hafi ekki verið bjartara yfir íslensku efnahagslífi um langa hríð. Samanburður á stöðu efnahagsmála núna og þegar ríkisstjórnin tók við sé eins og að bera saman svart og hvítt.

„Lífskjarasóknin er nú hafin og framundan eru gríðarlega mikilvæg og spennandi verkefni sem flest eru komin vel á veg. Ekkert bendir því til annars en að okkur muni takast það ætlunarverk að nýta vel það sögulega tækifæri sem ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna er,“ sagði Jóhanna.

Ræða Jóhönnu á vef Samfylkingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert