Tillaga um úrsögn úr Nató

Anders Fogh Rasmussen framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Anders Fogh Rasmussen framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. FABRIZIO BENSCH

Þingmenn VG hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Þeir þrír þingmenn sem sögðu sig úr þingflokki í vetur standa að tillögunni með þingmönnum VG.


„Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið þegar kalda stríðið var í algleymingi og heimsmyndin dregin skörpum skilum milli tveggja andstæðra fylkinga. Stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin, standa nú ekki lengur með vopnabúr sín hvort á móti öðru heldur hafa hagsmuna- og hernaðarátök á heimsvísu tekið á sig gjörbreytta mynd.
Atlantshafsbandalagið hefur einnig tekið miklum breytingum í tímans rás en þó ekki með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið í ljósi breyttrar skipanar heimsmála. Í stað þess að slíðra sverðin í þágu friðar við lok kalda stríðsins hefur Nató farið í útrás með gríðarlegri hernaðaruppbyggingu um víða veröld.
Bandalagið er löngu hætt að skilgreina sig sem einungis bandalag um sameiginlegar varnir aðildarríkja. Í stað þess að horfa til beinnar árásar á eitthvert aðildarríkja bandalagsins, og skuldbindingar annarra aðildarríkja að hrinda slíkri árás, er nú litið á meinta ógn við einstök aðildarríki sem ógn og jafnvel árás á önnur. Með túlkun bandalagsins á ógn við öryggi um víða veröld fylgir nær opin heimild um hernaðaríhlutun, enda beitir Nató sér um heim allan í mun ríkari mæli en áður. Sú hefð hefur nú fest sig í sessi að Atlantshafsbandalagið taki við herleiðöngrum og stríðsbrölti forusturíkja sinna. Má færa fyrir því sterk rök að bandalagið sé herskárra og háskalegra en nokkru sinni fyrr,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Þingsályktunartillaga VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert