Íslendingar 433.000 árið 2060

Heiðar Kristjánsson

Mannfjöldi á Íslandi verður á bilinu 384.000 til 491.000 árið 2060 samkvæmt spá Hagstofunnar, en miðspá hennar gerir ráð fyrir því að á Íslandi muni búa um 433.000 manns á því ári.

Aldurskipting landsmanna breytist mjög á tímabilinu samkvæmt spánni. Fjöldi þeirra sem eru 65 ára og eldri eykst mjög í hlutfalli af fólki á vinnualdri (20–64 ára) en yngra fólki fækkar.

Í öllum spáafbrigðum er gert ráð fyrir jákvæðum flutningsjöfnuði til langs tíma, þ.e. að fleiri flytji til landsins en frá því. Sá flutningsjöfnuður er borinn uppi af erlendum ríkisborgurum, en til lengri tíma litið flytja jafnan fleiri íslenskir ríkisborgarar til útlanda en snúa heim. Ef gert er ráð fyrir engri nettófjölgun erlendra ríkisborgara í landinu yrði mannfjöldaþróunin hér á landi allt önnur en gert er ráð fyrir í spá Hagstofunnar. Mannfjöldinn myndi þá mestur vera árið 2035 eða rúmlega 343 þúsund einstaklingar en falla síðan til 2060 þegar íbúar landsins yrðu álíka margir og í upphafi tímabilsins.

„Búferlaflutningar til og frá landinu skipta miklu máli, einkum um mannfjöldaþróun til næstu ára. Sterk fylgni er við mikilvægar hagstærðir, þ.e. verga landsframleiðslu og atvinnuleysi, en misjafnt eftir kyni og ríkisfangi. Þá skiptir sókn íslenskra ríkisborgara í nám erlendis, eða einfaldlega ævintýraþrá ungs fólks, miklu máli,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert