Þrekvirki við endurreisn banka

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í ræðustóli á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í ræðustóli á Alþingi. Mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra bað þingheim að hugleiða hversu mikið var í húfi árið 2009 að endurreisn viðskiptabankanna þriggja yrði kláruð, langvinnum málaferlum væri bægt frá og fullfjármagnaðir bankar gætu farið að sinna sínu hlutverki. Hann flutti nú í morgun skýrslu sína um endurreisn viðskiptabankanna.

„Árið 2009 vorum við gagnrýnd fyrir tafir, og að þetta gengi of hægt. Nú heyrist mér þingmenn segja að þetta hefði mátt liggja flatt á hliðinni á meðan staðið væri í málaferlum árum saman," sagði Steingrímur.

„Hvað var verið að gera uppi á Íslandi árið 2009? Hér var verið að byrja að vinna úr 4., 8. og 9. stærsta gjaldþroti veraldarsögunnar. Mér er sagt að Kaupþing hafi verið 4. stærsta gjaldþrot sögunnar.“

Sagði Steingrímur að þessi mál hafi nú verið leidd í höfn til heilla fyrir íslenska ríkið og íslenska hagsmuni og að hann væri algerlega óhræddur við að þessi aðgerð væri skoðuð í grunninn og gagnrýnd. „Hér hefur verið unnið meira eða minna unnið þrekvirki við að koma þessu í höfn á þó ekki meiri tíma en á réttu einu ári," sagði Steingrímur.

Ræða Steingríms fjallaði um skýrslu sem lögð var fram á Alþingi 31. mars síðastliðinn en ekki hefur gefist færi á að ræða fyrr en nú. Í ræðunni lagði Steingrímur höfuðáherslu á að í umræðu um skýrsluna hefði verið farið með margar rangfærslur og misskilning um endurreisn bankanna. Sagði hann að leiðin hefði verið mörkuð með neyðarlögunum 6. október 2008, þar sem Fjármálaeftirlitinu, ekki ríkisstjórninni, hefðu verið fengnar víðtækar valdheimildir til að yfirtaka fjármálafyrirtæki og ráðstafa eignum þeirra og skuldum, auk þess sem yfirlýsing hefði verið gefin um tryggingu allra innistæðna í bönkum.

Raunsönn skýrsla og ekki pólitísk í eðli sínu

,,Skýrslan er að mínu mati eins raunsönn og greinargóð skýrsla um þessa aðgerð og kostur er. Hún er samin með því hugarfari að vera fyrst og fremst upplýsandi gagn. Ekki pólitísk í eðli sínu, en auðvitað yfirfarin af mér og á mína ábyrgð,“ sagði hann.

Rakti Steingrímur að FME hefði ákveðið að við ráðstöfun eigna og skulda til nýrra færi fram mat á mismun eigna og skulda, og nýr banki gæfi út skuldabréf til þess gamla.

„Í bréfi stjórnvalda til stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 3. nóvember 2008 sbr. breytingu á 9. tl. yfirlýsingar frá 15. nóvember 2008, lýsa íslensk stjórnvöld þeim atriðum sem eru til grundvallar við flutning eigna og skulda frá gömlum bönkum til nýju bankanna. Að það sé lykilatriði að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum," sagði Steingrímur.

Þar hefði komið fram að stjórnvöld myndu tryggja að lánadrottnum og kröfuhöfum yrði sýnd sanngjörn meðferð sem væri lögum samkvæm.

Samið um lægra verð á yfirfærslunni en upphaflega var talið

Til að framkvæma óháð mat á þessu voru Deloitte í Lundúnum og Oliver Wyman fengin til að taka það út í desember 2008 var ljóst að matið yrði ekki tala, heldur bil, rakti Steingrímur. Þá yrði ljóst að FME gæti ekki notað matið til að verðleggja yfirfærsluna, heldur þyrfti að semja um verð hennar. Ef samningar næðust ekki þyrfti FME að ákveða greiðsluna upp á sitt einsdæmi.

„Það varð að sjá til þess að sanngjarnt gjald kæmi fyrir eignayfirfærslu. Hliðstætt dæmi getum við kallað eignarnám, þar sem greiða verður fyrir samkvæmt óháðu mati, en ekki samkvæmt einhliða ákvörðun þess sem tekur eignina yfir. Það gengi ekki, eða þá verðum við að minnsta kosti að afnema stjórnarskrána fyrst," sagði Steingrímur.

Sagði Steingrímur að upphaflegt mat á verðmæti yfirfærslunnar hafi verið 2.886 milljarðar króna. Verðmat Deloitte hefði svo verið á bilinu 1.880 til 2.200 milljarðar króna. „Það sem samið var um að lokum voru 1.760 milljarðar, sem svarar um 56% af fyrra eignamati og hugmyndir um verð eignanna virðast því hafa verið hærri á síðari hluta árs 2008 en samið var um að lokum," sagði Steingrímur.

Steingrímur minnti á að þessir samningar hefðu verið staðfestir af Alþingi í desember 2009, þegar lögfestar voru heimildir fyrir fjármálaráðherra í tengslum við þessar ráðstafanir. Þá hafi frumvarp um það verið samþykkt eftir stutta umræðu með aðeins fjórum mótatkvæðum.

Hann lagði áherslu á að afslátturinn við yfirfærsluna til nýju bankanna sé að skila sér til viðskiptamanna bankanna og sömuleiðis hafnaði hann því að erlendir kröfuhafar sem eigendur myndu gagna harðar fram gegn viðskiptamönnum Arion og Íslandsbanka en íslenskir eigendur hefðu gert. Þeir vildu hámarka verðmæti sinna banka til þess að geta selt hlut sinn innan fárra ára. Forsenda þess væri sterkur hópur viðskiptamanna.

Þar að auki væri eignarhaldið í gegnum skilanefndir og eldveggir væru á milli kröfuhafanna og stefnu bankanna gagvart skuldurum.

Skýrslan fjármálaráðherra var fyrsta mál á dagskrá þingfundar nú í morgun, en fundurinn hófst klukkan tíu.  Aðeins eru tvö mál á dagskrá þingsins í dag en hið síðara er hið svokallaða minna kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar, um stjórn fiskveiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert