Saksóknari tapað áttum?

Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari Alþingis og ríkissaksóknari.
Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari Alþingis og ríkissaksóknari.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, spyr á Facebookvef sínum hvort Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, sé búin að tapa öllum áttum í moldviðrinu sem þyrlaðist upp eftir hrun.

„Hvernig dettur henni í hug að ákæruvaldið sé rétti aðilinn til að halda úti trúverðugri vefsíðu um landsdómsmálið? Og svo býðst hún til að gera þar grein fyrir sjónarmiðum hins ákærða!" segir Ingibjörg Sólrún á síðunni.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrum borgarstjóri og alþingismaður, segir í athugasemd við færslu Ingibjargar Sólrúnar: „Dómstóll götunnar í boði ríkisins."

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á bloggvef sínum í gær, að ólíkt Lavrentiy Beria Stalíns ráði Sigríður Friðjónsdóttir Jóhönnu yfir netinu. Og það ætli hún að nýta sér vel í ofureflinu sem byltingarfólkið ætli að beita gegn Geir Haarde. 

„Sigríður hefur nú opnað heimasíðu á kostnað almennings sem notuð verður til að stjórna almenningsálitinu. Ójafnari og ósanngjarnari leik hef ég ekki áður séð í dómsmáli!" segir Tryggvi Þór.

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, sagði í gærkvöldi, að tilgangur vefsíðu embættisins sé að almenningur og fjölmiðlar geti aflað sér upplýsinga um landsdómsmálið. Það sem saksóknari fari með málið fyrir hönd Alþingis sé sjálfsagt að það sé á höndum embættisins að halda úti slíkri vefsíðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert