Skýrslan nýtist til að bæta starfshætti kirkjunnar

Rannsóknarnefnd kirkjunnar afhenti forsætisnefnd kirkjuþings skýrslu sína í morgun. Pétur …
Rannsóknarnefnd kirkjunnar afhenti forsætisnefnd kirkjuþings skýrslu sína í morgun. Pétur Kr. Hafstein er annar frá vinstri. mbl.is/Eggert

Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings og formaður forsætisnefndar þingsins, segir að margt sé að finna í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem geti nýst kirkjunni til að bæta starfshætti sína. Hann leggur áherslu á að kirkjan taki skýrslunni af yfirvegun, skynsemi og af jákvæðum huga.

„Hér er sýnilega á ferðinni mjög vandað og mikið verk, og alveg ljóst að rannsóknarnefndin hefur lagt mikla alúð í verkið og kostað kapps um að draga fram öll sjónarmið sem til álita gátu komið,“ sagði Pétur í samtali við mbl.is að loknum fundi forsætisnefndar kirkjuþings og rannsóknarnefndarinnar, sem fram fór í Grensáskirkju í morgun.

Þar kynnti rannsóknarnefndin forsætisnefndinni niðurstöður sínar, en rannsóknarnefndin fjallaði um starfsfætti og viðbrögð þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot.

Mikilvægt stuðningsgagn

„Í stórum dráttum sýnist mér ljóst að í skýrslunni sé margt að finna sem geti nýst kirkjunni til þess að bæta starfshætti sína á þessu sviði. Eins og var nú raunar annar megin tilgangur þess að setja nefndina á laggirnar. En hann var sá að fá ábendingar og tillögur um það sem betur mætti fara. Hinn þátturinn sneri að því hvað hefði farið úrskeiðis í viðbrögðum kirkjunnar. Það er enginn vafi á því að þessi skýrsla er til þess fallinn að verða kirkjunni mjög mikilvægt stuðningsgagn til þess að byggja upp betri starfshætti og draga af lærdóma,“ segir Pétur.

Aðspurður segir hann að það hafi ekkert komið sér sérstaklega á óvart í skýrslunni.

„Auðvitað eru þarna ýmsir þættir frá þessum tíma sem snúa að öðru en kirkjustjórninni, sem ég þekkti ekki til, eins og starfsemi prestafélagins og prófastafélagsins á þessum tíma - fyrir 1996 og á því árabili. En að því leyti sem ég hef þekkt til málsins, þá má segja að þetta hafi í raun og veru ekki komið mér á óvart.“

Kirkjuþing verður kallað saman nk. þriðjudag til að fjalla um niðurstöður skýrslunnar.

Niðurstöður nefndarinnar settar í málefnalegan farveg

„Þar legg ég megináherslu á að það að kirkjan taki við þessari skýrslu af yfirvegun og skynsemi og jákvæðum huga. Það er það sem öllu máli skiptir, að hún noti skýrsluna til þess að byggja sig upp, styrkja innviði sína og draga af lærdóma. Ekki til þess að rífa niður eða áfellast einn eða annan.“

Pétur segir að í skýrslunni sé ekki að finna eina meginniðurstöðu. Þar sé tekið á ýmsum málum. Í lok hennar sé svo kafli þar sem nefndin komi ábendingum á framfæri og leggi fram tillögur um það sem betur megi fara. 

„Það munum við skoða mjög gaumgæfilega,“ segir Pétur. Það verði verkefni þingsins að fara yfir ábendingarnar og nota þær til að koma með tillögur að umbótum þar sem þeirra sé þörf.

Á fundi kirkjuþings verði niðurstöður nefndarinnar settar í málefnalegan farveg eins og kostur sé.

„Í því skyni að það geti þá legið fyrir kirkjuþinginu í haust hvað þarf að gera. Hvaða starfsreglum og starfsháttum þarf að breyta, og svo framvegis,“ segir Pétur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert