Sár yfir að hafa varið föður sinn

Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Árni Sæberg

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir Ólafs Skúlasonar biskups, lýsti í framburði sínum fyrir rannsóknarnefnd kirkjuþings því er hún ákvað að vera ekki viðstödd útför föður síns árið 2008, en fram hefur komið að hann beitti hana kynferðislegu ofbeldi er hún var barn og unglingur. Leitaði hún til Pálma Matthíassonar, sem sá um útförina, er beindi henni til bróður síns, sr. Gunnars Rúnars Matthíassonar, formanns fagráðs þjóðkirkjunnar.

Guðrún Ebba hafði á þessum tíma átt samtöl við Guðrúnu Jónsdóttur hjá Stígamótum og rætt við Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur, sem hafði árið 1996 ásakað föður hennar fyrir kynferðislegt ofbeldi.

Sagði hún Sigrúnu Pálínu að hún væri sár yfir því að hafa varið föður sinn er málið komst í hámæli og leitast við að gera Sigrúnu Pálínu og hinar konurnar ótrúverðugar.

 Efaðist um að málið ætti erindi til fagráðs

Guðrún Ebba segir sr. Gunnar hafa efast um að mál hennar ættu erindi til fagráðsins, faðir hennar væri dáinn. Sambærileg segir hún viðbrögð sr. Pálma hafa verið. „Þarna er jarðarförin ekki búin að eiga sér stað," sagði Guðrún Ebba í framburði sínum. „Þar að auki sagði hann að þetta væri svona „domestic". Ég væri að segja frá slíkum atvikum. Það hefur líka fokið í mig eftir á að hugsa þetta þannig að nú sé einhver stúlka, dóttir prests, sem þarf að ganga í gegnum það sama og ég og fær síðan að heyra það þegar hún er orðin rúmlega fimmtug að þetta hafi verið svona „heimilis" og kirkjan skoði það ekki".

Guðrún segist ekki hafa sagt berum orðum að hún óskaði eftir fundi með fagráðinu en fannst eftir á að Gunnar hefði átt að liðsinna henni, enda kom hún til hans í miklu áfalli. „Ég sé auðvitað núna að hann hefði átt að segja að þau skyldu að minnsta kosti hitta mig og ég fengi traustan talsmann."

Eftir fundinn hringdi Gunnar í Guðrúnu Ebbu og staðfesti það sem hann hafði sagt á fundi þeirra, mál hennar ætti ekki erindi fyrir fagráð þjóðkirkjunnar.

„Síðan hefur þetta setið í mér. Ég brást ekki við þarna, var kannski bara fegin að þurfa ekki að gera meira, en það breytir því ekki að þeir hafi átt að liðsinna mér, þó ekki væri nema það."

Guðrún Ebba sagði nokkrum mönnum innan kirkjunnar frá málinu í kjölfarið, m,.a. Karli Sigurbjörnssyni biskupi, árið 2009, þar sem hún m.a. óskaði eftir að fá að hitta kirkjuráð. Hafði Karl m.a. spurt Guðrúnu Ebbu hvað hann ætti að segja móður hennar.

„Ásakanir á hendur látnum manni“

Bið varð á því að Guðrún Ebba fengi að hitta kirkjuráð, m.a. vegna þess að formlegt erindi hennar þess að lútandi var ekki skráð strax. Karl Sigurbjörnsson bar fyrir rannsóknarnefndinni að það hefði ekki verið meðvituð ákvörðun að láta hjá líða að skrá bréfið um leið og það barst: „Það var talið innihalda mjög alvarlegar ásakanir á hendur látnum manni. Það var nú kannski það sem gerði það að verkum að það var beðið með það."

Kirkjan hefði átt að liðsinna

Það var ekki fyrr en 8. desember 2010 að Guðrún Ebba fékk loks fund með fagráði kirkjunnar og síðar með kirkjuráði. Er það niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að með svarbréfi fagráðs til nefndarinnar sé á það fallist að réttara hefði verið af hálfu ráðsins að eiga frumkvæði að því á árinu 2008 eða í síðasta lagi þegar mál hennar var til umfjöllunar á vettvangi kirkjuráðs á árinu 2009 að gefa Guðrúnu Ebbu kost á liðsinni eða annarri aðstoð fagráðs í samræmi við starfsreglur þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert