„Snöggvondur, mjög reiður"

Sr. Geir Waage.
Sr. Geir Waage.

Sr. Geir Waage, sóknarprestur, lýsti því fyrir rannsóknarnefnd þjóðkirkjunnar þegar Ólafur Skúlason, þáverandi biskup Íslands, reyndi í lok janúar 1996 að fá hann til að stinga gögnum um ásakanir um kynferðisbrot biskups undir stól en Geir var þá formaður Prestafélags Íslands.

Geir sagðist hafa setið í sófa á skrifstofu biskups en Ólafur á stól, mjög afslappaður, bara eins og hann sæti heima hjá sér.

Biskup hefði verið afskaplega vinsamlegur til að byrja með og erindi hans hefði verið að biðja Geir um að stinga undir stól þessum gögnum sem var ekkert leyndarmál orðið á þessum tíma, að hefðu borist stjórn prestafélagsins.

Geir hefði þá verið með þau undir höndum og átt eftir að koma þeim til  siðanefndarinnar. Hann hefði neitað því að stinga gögnunum undir stól og hefði biskup þá spurt hann hvort honum væri kunnugt um hvað þessi gögn innihéldu. Geir sagðist hafa svarað því til að hann hefði grun um það, en hann hefði ekki lesið þau nema bara rennt yfir síðurnar sem blöstu við fyrst í erindinu.
Hann tæki enga efnislega afstöðu til þess sem þarna væri og það væri
siðanefndarinnar að fjalla um þetta mál.

Biskup hefði talað um að þetta væru mjög alvarlegar ásakanir á sig, en Geir hefði ekkert gefið út á það. Biskup hefði svo sagst geta sannað fyrir honum að þessi kona, Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, hefði aldrei komið til sín á þeim tíma sem hún sagði að þessir hlutir hefðu gerst og gengið að skáp í horninu og tekið þar út mikinn bunka af dagbókum sínum og sagst geta flett þessu upp og sannað það fyrir honum að slíkur fundur hefði aldrei átt sér stað á milli þeirra.

Geir hefði sagt að það væri alveg óþarfi því að hann væri ekki málsaðili að þessu máli að öðru leyti en því að honum bæri að koma þessu erindi í hendur siðanefndar prestafélagsins. Þá hefði biskup krafist þess að hann eyðilegði þessi gögn eða styngi þeim undir stól. Geir hefði sagt að það kæmi ekki til greina.

Hélt að biskup myndi leggja á sig hendur

Þá hefði biskup orðið „snöggvondur, mjög reiður“. Sagðist Geir  í raun og veru hafa haldið að biskup ætlaði hreinlega að leggja á hann hendur því að hann hefði verið svo ofboðslega reiður og öskrað á hann að hann væri til skammar þeirri kirkju sem hann reyndi að þjóna og biskup þjónaði og þetta yrði stórskaðlegt kirkjunni ef upp kæmist. Það mætti bara ekki undir neinum kringumstæðum falla þessi blettur á heiður biskupsins.

Geir hefði í engu svarað, bara setið þetta af sér og þegar biskup hefði verið  búinn að skamma hann heilmikið hefði hann sagt að kirkjan væri meira en bara einn maður þó biskup væri. Hann myndi þessi orð sín mjög glöggt.

Geir hefði einnig sagt að hann þekkti það sem prestur að allir menn ættu rétt á áheyrn. Það ætti við um brotamenn og alla menn og hann hlyti að kannast við það sjálfur að þeir sætu stundum yfir fólki sem hefði orðið á hinir voðalegustu hlutir og hversu mjög sem það tæki á mann sem prest að heyra af slíku af munni þess sem hefði orðið eitthvað mjög alvarlegt á, manndráp eða þaðan af verri hlutir, þá yrðu þeir eigi að síður að veita þessu fólki áheyrn, sinna því og það ætti við um þetta mál. Að svo miklu leyti sem kirkjan ætti í hlut þá ættu allir rétt á áheyrn. Þessi erindi færu til siðanefndar og stjórn prestafélagsins myndi ekkert hafa frekar með málið að gera.

Ástæðulaust að halda þessu áfram

Þegar biskup hefði ekki fengið hann til þess að stinga þessu máli undir stól hefði hann ausið yfir Geir skömmum og svívirðingum. Þegar Geir hefði þótt nóg komið hefði hann staðið upp og sagt: „Jæja, biskup, ég held að það sé ástæðulaust að halda þessu áfram.“ Hann hefði þakkað fyrir og gengið út.

Biskup hefði komið á eftir honum mjög reiður og öskrað á eftir honum þegar hann gekk áleiðis til lyftunnar að sér byði við að ávarpa hann „sr. Geir“.

Geir hefði brugðið mjög við þetta því að á þessum tíma hefði ávarpið eiginlega alltaf verið notað í samskiptum presta. Þá hefðu flestir ávarpað hver annan með þessum hætti til þess að „minna sig á og stilla sig af“.

Biskup hefði sem sagt látið hann heyra að hann væri svo lágt skrifaður hjá sér eftir þetta að hann treysti sér ekki til þess að ávarpa hann með hans lögmæta ávarpstitli.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert