Ólafur Gaukur látinn

Ólafur Gaukur Þórhallsson.
Ólafur Gaukur Þórhallsson.

Ólafur Gaukur Þórhallsson, tónlistarmaður, lést á hvítasunnudag, áttræður að aldri. Var hann einn helsti brautryðjandi dægurtónlistar á Íslandi og stofnaði hann meðal annars Gítarskóla Ólafs Gauks árið 1975 og rak hann  til æviloka.

Fæddist hann þann 11.ágúst árið 1930 en foreldrar hans voru Bergþóra Einarsdóttir frá Garðhúsum í Grindavík og Þórhallur Þorgilsson magister í rómönskum málum.

Var Ólafur Gaukur einn helsti brautryðjandi dægurtónlistar á Íslandi sem gítarleikari, lagahöfundur, hljómsveitarstjóri, útsetjari, textahöfundur, plötuútgefandi og kennari.

Aðeins fimmtán ára gamall stofnaði Ólafur Gaukur sitt fyrsta tríó og á menntaskólaárum sínum hóf hann að leika með vinsælustu danshljómsveitum landsins, m.a. KK sextett auk þess að stýra sinni eigin hljómsveitum og mun Sextett Ólafs Gauks vera þeirra þekktust.

Ólafur Gaukur stofnaði Gítarskóla Ólafs Gauks árið 1975 og rak hann  til æviloka. Fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar hlaut hann ýmsar viðurkenningar. Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna hlaut hann árið 2006. Árið 2008 var hann sæmdur hinni íslensku Fálkaorðu og sama ár var hann kjörinn heiðursfélagi í Félagi  tónskálda og textahöfunda og árið 2009 sæmdu gítarleikarar hann Gullnöglinni.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs Gauks er Svanhildur Jakobsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert