„Biskup þarf að segja af sér“

Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur Grafarholtsprestakalli.
Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur Grafarholtsprestakalli. mbl.is/Ómar

Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur Grafarholtsprestakalli, segir að biskup Íslands þurfi að segja af sér í kjölfar þess sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings.

Sigríður segir í yfirlýsingu að biskup eigi þannig að undirstrika umhyggju fyrir kirkju þeirri sem hann hann þjóni, kirkju sem sé biðjandi, boðandi og þjónandi.

„Biskup Íslands þarf að kannast við það, að kirkjunni kemur betur að annar taki við lyklavaldi hans. Eftir því sem hann situr lengur í embætti verður skaði kirkjunnar meiri og sárari og tiltrú fólksins á kirkjunni dvínar,“ segir í yfirlýsingu Sigríðar.

„Sú gagnrýni sem kirkjuvaldið sætir í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar eru vegna sálgæslulegra mistaka og varða þannig grunn og trúverðugleika hinnar vígðu þjónustu þjóðkirkjunnar,“ segir Sigríður ennfremur.

„Núverandi biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, er átalinn í skýrslunni fyrir þrenns konar sálgæslumistök á löngum tíma. Í fyrsta lagi telur nefndin að honum hafi orðið á alvarleg mistök sem kirkjuráðsmaður, þegar ráðið gaf frá sér stuðningsyfirlýsingu við Ólaf Skúlason í mars árið 1996. Í öðru lagi telur nefndin að hann hafi gert mistök þegar hann ásamt núverandi dómkirkjupresti reyndi sættir milli Ólafs Skúlasonar og tveggja kvenna sem höfðu ásakað hann, daginn eftir að hann stóð að yfirlýsingu kirkjuráðs. Í þriðja lagi er biskup Íslands talinn bera ábyrgð á margháttuðum mistökum við úrvinnslu máls dóttur biskups 2008-2011, þar sem erindi hennar var stungið undir stól,“ segir í yfirlýsingunni.

„Biskup Íslands brást í biskupsmálinu og brot hans eru á sviði sálgæslu, þess sviðs sem myndar grunn vígðrar þjónustu og trúverðugleika þeirrar þjónustu. Hann er tilsjónarmaður prestanna, en getur á engan hátt talist heppilegur aðili til að aga þá aðila sem hafa gerst sekir um mistök, vanrækslu og þöggun. Eftir höfðinu dansa limirnir. Trú almennings á umhyggju og fagleg vinnubrögð hinnar vígðu þjónustu er komin undir því að siðbót sálgæslunnar nái til allra stiga og þátta kirkjuvaldsins.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert