Flyst hæsti foss landsins búferlum?

Fossarnir í klettabeltinu innst á Morsárjökli.
Fossarnir í klettabeltinu innst á Morsárjökli. mbl.is/Jón Viðar Sigurðsson

Við óformlegar mælingar á fossum síðastliðinn sunnudag kom ljós að Glymur, sem löngum hefur verið talinn hæsti foss landsins, sé sennilega að missa stöðu sína sem slíkur. Er talið að fossinn sem mældur var við Morsárjökul sé ívið hærri en talið er að munurinn sé um 30 metrar.

Eins og Morgunblaðið greindi frá á forsíðu í gær, fóru Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur, Guðmundur Ögmundsson, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli, og Unnur Jónsdóttir, landvörður á Lónsöræfum, til reglubundinna mælinga á skriðuhlaupi í Morsárjökli síðasta sunnudag. Í kjölfarið ákvað Jón Viðar að gera einfalda hornamælingu á hæð fossanna sem sáust í klettabeltinu, en Jón hafði orðið var við þá áður og grunaði hann sterklega að þarna væri um að ræða hæstu fossa landsins.Við mælinguna kom í ljós að einn fossinn er um 228 m á hæð, en Glymur sem áður hafði verið talinn hæstur fossa hér á landi er einungis 198 metrar.

Ef rétt reynist mun Vatnajökulsþjóðgarður ekki einungis skarta stærsta jökli landsins og hæsta tindi landsins heldur einnig hæsta fossi landsins.

Verklag Landmælinga

Í samtali við Eydísi Líndal, forstöðumann sviðsmiðlunar og grunngerðar hjá Landmælingum, kom fram að þegar um nýjar staðreyndir sem þessar væri að ræða væri málið kannað. „Í framhaldi af frétt Morgunblaðsins munum við heyra í forsvarsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs og munum líklega mæla fossinn í samstarfi við þá,“ segir hún. Að hennar sögn mun mælingin fara fram með nákvæmum hornamælingum sem munu þá leiða það í ljós hvort hér sé um að ræða hæsta foss landsins. „Ef svo er þá þarf að skoða hvort fossinn verði skilgreindur sem slíkur og sögulegum staðreyndum þá breytt í kennslubókum,“segir Eydís. Yrði hér um samvinnuverkefni Landmælinga og Vatnajökulsþjóðgarðs að ræða.

Sýnilegur frá 2007

Að sögn Jóns Viðars jarðfræðings, sem átti kveikjuna að því að fossinn yrði mældur, hefur fossinn verið sýnilegur frá árinu 2007. „Jöklar fara hopandi við hlýnun jarðar. Ef litið er nokkra áratugi aftur í tímann sést það bersýnilega. Þetta skapast við þynningu jöklanna, fossinn kemur af fjallsbrún jökulsins,“ segir Jón, með von um að mælingin verði framkvæmd sem fyrst.

Að sögn Þórðar H. Ólafssonar, framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs, mun hann hafa samband við Landmælingar við fyrsta tækifæri og biðja um mælingu á fossinum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »