Gömul leiktjöld dregin upp

Sóknarprestarnir Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir segja að gömul leiktjöld hafi verið dregin upp á kirkjuþingi sem haldið var í síðustu viku þar sem rannsóknarskýrsla um kynferðisbrot Ólafs Skúlasonar, fyrrum biskups, var rædd.

„Rannsóknarskýrslan rekur sorgarsögu þar sem þvingunarvaldi var beitt til að skapa hjarðhegðun og trúnaður var rofinn með svo margvíslegu móti til þess eins að tryggja persónur í sessi. Afleiðingin var sú að þolendur og gerendur voru svipt rétti sínum til sálgæslu og kirkjan var svipt trúverðugleika sínum sem vettvangur öryggis og heilbrigðis," segja sóknarprestarnir Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson í grein sem birt er á Pressunni.

„Við upphaf kirkjuþings sem haldið var í tilefni af útgáfu skýrslunnar urðu þau tíðindi að gömul leiktjöld voru dregin upp og sama vinnulag var við haft. Forseti kirkjuþings, Pétur Kr. Hafstein, hóf atburðarásina með ræðu sinni þar sem hann gerði persónu herra Karls Sigurbjörnssonar að aðalatriði og fjallaði af tilfinningaþunga um þau spjótalög sem að honum hafi verið rétt utan úr samfélaginu og ekki síður innan úr kirkjunni og lét þess getið að kirkjunnar fólk ætti að standa með sínum besta manni en ekki leggja til hans.

Þannig dró hann upp mynd af kirkjunni sem biskupskirkju um leið og hann flokkaði kirkjulega þjóna í tvo hópa, annan vinveittan en hinn ekki. Hvort tveggja var óboðlegt. Kirkjan er ekki biskupskirkja heldur hreyfing trúaðra og þar heyrast og eiga að heyrast margar raddir. Með aðferð sinni leitaðist Pétur við að móta andrúmsloft hjarðhegðunar þar sem gagnrýninni hugsun er úthýst og hún túlkuð sem fjandskapur. Rannsóknarskýrslan ber því vitni að aðferðin er gamalreynd og að hún virkar.

Herra Karl Sigurbjörnsson ávarpaði einnig samkomuna, settist að því búnu í öndvegi og vék ekki úr sal eða í áheyrnarsæti þótt persóna hans og embættisverk væru til umræðu. Einnig það var óboðlegt," skrifa þau Jóna Hrönn og Bjarni.

 Hér er grein eftir Pétur Pétursson prófessor við guðfræðideild HÍ um sama mál

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert