Tíndu upp rusl í borgarlandinu

Jón Gnarr tínir rusl við Miklubraut. Hann sagði sígarettustubba mikið …
Jón Gnarr tínir rusl við Miklubraut. Hann sagði sígarettustubba mikið vandamál. Þeir væru út um allt. Ljósmynd Guðmundur Vignir Óskarsson.

Yfir 100 starfsmenn borgarinnar, frá hinum ýmsu skrifstofum hjá Reykjavíkurborg, tíndu upp rusl í góða veðrinu í Reykjavík í dag. Jón Gnarr borgarstjóri sem hvatti til átaksins var meðal þeirra sem tóku til hendinni.

Hreinsunarátkið var haldið undir merkinu Vettlingadagar og í frétt frá Reykjavíkurborg kemur fram að borgarstjóri  og aðstoðarmaður hans Sigurður Björn Blöndal voru að störfum nálægt Vatnsmýrinni „og voru ötulir í ruslatínslunni og fundu ýmislegt markvert í ruslinu sem þeir tíndu upp. Borgarstjóri fann t.a.m. poka sem honum var bent á að hefði líklega geymt fíkniefni en aðstoðarmaður var heppnari og fann þúsund króna seðil og nothæfa hillu. Það getur því borgað sig að tína upp rusl á víðavangi,“ segir í fréttatilkynningu.

Aðrir starfsmenn borgarinnar tíndu rusl hér og þar í borginni.

„Vaskur hópur frá Ráðhúsi Reykjavíkur og Menningar- og ferðamálasviði hreinsaði  t.d. Laugarnesið og starfsmenn Upplýsingatæknimiðstöðvar voru við ruslatínslu í Grafarvogi svo eitthvað sé nefnt.

Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar skipulagði átakið og útbýtti kortum af hreinsunarsvæðum ásamt tækjum til ruslatínslunnar. Starfsmenn hverfastöðva borgarinnar tóku síðan pokana sem söfnuðust. Í fyrri hluta hreinsunarátaksins sem fram fór í lok maí söfnuðust um 100 svartir pokar af rusli úr borgarlandinu. Nú voru önnur svæði hreinsuð og má reikna með að um 180 pokar eða meira hafi safnast.
Eftir hreinsunarátakið í dag komu starfsmenn af hinum ýmsu sviðum borgarinnar saman við Hverfismiðstöðina á Klambratúni og snæddu grillaða hamborgara og skiluðu ruslatínslutækjum sínum og vestum,“ segir ennfremur í fréttinni.

„Við það tækifæri þakkaði borgarstjóri þeim fyrir að taka þátt í hreinsunarátakinu með sér. Jón Gnarr sagði að hann hefði öðlast nýjan skilning á hreinsun borgarlandsins. Til dæmis hefði hann aldrei leitt hugann að því hversu mikið vandamál sígarettustubbar væru. Þeir væru út um allt og það væri erfitt að tína þá upp. Fólk ætti því að hugsa sig um tvisvar áður en það henti þeim frá sér,“ segir í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar komnir í tilheyrandi vesti og tilbúnir í hreinsunarstarfið.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar komnir í tilheyrandi vesti og tilbúnir í hreinsunarstarfið. Ljósmynd/Guðmundur Vignir Óskarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert